Framlög aukin til mannúðarmála í Sýrlandi og grannríkjum
Framlög Íslands til mannúðarmála í Sýrlandi og grannríkjum munu nema samtals 840 milljónum króna næstu þrjú árin. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti þetta á framlagaráðstefnu í Brussel í dag.
Meginþema ráðstefnunnar í Brussel var mikilvægi friðarumleitana í Sýrlandi þar sem Sameinuðu þjóðirnar gegna veigamiklu hlutverki.
„Staða mannúðarmála í Sýrlandi og nágrannaríkjunum er stærsta og eitt allra flóknasta viðfangsefnið sem alþjóðasamfélagið hefur staðið frammi fyrir og jarðskjálftarnir í febrúar juku frekar á þann vanda. Við slíkar aðstæður er okkur skylt að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og veita mannúðaraðstoð og vernd,“ segir utanríkisráðherra.
Á fundinum tilkynnti ráðherra um framlag Íslands fyrir tímabilið 2024-2026 að upphæð samtals 840 milljónir króna til verkefna Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess. Framlagið skiptist milli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), svæðasjóða OCHA fyrir Líbanon og Sýrland og Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women).
Framlagaráðstefnan fyrir Sýrland er skipulögð af Evrópusambandinu ár hvert og er meginvettvangur fyrir fjármögnun alþjóðasamfélagsins á mannúðaraðstoð og öðrum stuðningi við almenna borgara í Sýrlandi og við flóttafólk í grannríkjum. Á þeim þrettán árum sem liðin eru frá því að átök brutust út í Sýrlandi hafa 14 milljónir íbúa landsins þurft að flýja heimkynni sín og hefur Ísland stutt við verkefni Sameinuðu þjóðanna á svæðinu í meira en áratug.