Hoppa yfir valmynd
19. júní 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Fyrsta brautskráning sjúkraliða úr fagnámi til diplómaprófs við Háskólann á Akureyri

Fyrsta brautskráning sjúkraliða úr fagnámi til diplómaprófs við Háskólann á Akureyri - myndMynd: Háskólinn á Akureyri

Fyrsti hópurinn sem lagt hefur stund á fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri 10. júní síðastliðinn. Skólinn er fyrstur háskóla hér á landi til að bjóða upp á þetta nám. Það er skipulagt með áherslu á sveigjanleika sem gerir nemendum kleift að stunda það samhliða störfum. Námið er ætlað sjúkraliðum sem vilja auka þekkingu sína og efla starfshæfni í geðheilbrigðisþjónustu, öldrunar- og heimahjúkrun. Alls voru 20 sjúkraliðar sem útskrifuðust úr náminu, allir af kjörsviði öldrunar- og heimahjúkrunar.

Mikill áhugi er meðal sjúkraliða á að auka við menntun sína sem sannast m.a. á því að tæplega 80 umsóknir hafa borist um diplómanámið fyrir næsta haust. Sjúkraliðafélag Íslands gerði nýverið könnun meðal sjúkraliða um áhuga á frekara framhaldsnámi á háskólastigi. Niðurstaða könnunarinnar leiddi í ljós að af um 500 sjúkraliðum sem tóku þátt í henni gátu um 80% sjúkraliða hugsað sér að hefja fagháskólanám við Háskólann á Akureyri og rúmlega 60% að hefja fagháskólanám nám við Háskóla Íslands. Þetta sýnir mikinn áhuga sjúkraliða á frekara námi á háskólastigi.

Þessi fyrsta útskrift sjúkraliða með diplómapróf frá Háskólanum á Akureyri markar ánægjuleg tímamót og svo sannarlega ástæða til að óska hinum nýútskrifuðu til hamingju.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta