Auglýst eftir umsóknum um styrki til jarðhitaleitar
Orkusjóður hefur opnað fyrir umsóknir um styrki til jarðhitaleitar. Áhersla er lögð á stuðning við verkefni sem hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar.
Einkum er horft til svæða þar sem vísbendingar eru um að finna megi heitt vatn sem nýta megi beint inn á hitaveitu eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta megi á miðlæga varmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu eru þegar til staðar. Áhersla er lögð á að styrkja verkefni þar sem nokkur þekking á jarðhita viðkomandi svæðis er fyrir hendi og snúa þá að því að hefja nýtingu eða frekari rannsóknum með vísan í fyrri niðurstöður.
Til ráðstöfunar eru 450 m.kr. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði þess gegn mótframlagi umsækjanda.
Frestur til að skila inn umsóknum er til 3. júlí 2023.
Umsóknir skulu sendar til Orkusjóðs í gegnum þjónustugátt Orkustofnunar: https://gattin.os.is
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Orkustofnunar.