Norrænt varnarsamstarf styrkist
Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna ræddu þróun öryggismála, árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu, aukið samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum og málefni Atlantshafsbandalagsins á tveggja daga fundi sínum á Íslandi. Svíþjóð fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu (NORDEFCO) en Ísland hélt ráðherrafund samstarfsins í Reykjavík og á öryggissvæðinu í Keflavík.
Á fundinum var farið yfir stöðu mála í Úkraínu og stuðning Norðurlandanna við varnarbaráttu landsins. Norrænn stuðningur við Úkraínu hefur meðal annars verið í formi fjárframlaga, þjálfunar og annar varnartengdur stuðningur.
„Það er sterk samstaða um að styðja varnarbaráttu Úkraínu og hafa Norðurlöndin öll tekið virkan þátt í þeim stuðningi. Ísland hefur ásamt hinum Norðurlöndunum og Litháen tekið að sér að leiða þjálfun í sprengjuleit og eyðingu fyrir úkraínska hermenn sem hefur borið góðan árangur,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Ráðherrarnir ræddu aukið vægi norræns varnarsamstarfs í ljósi breytinga í öryggismálum og væntanlegrar aðildar Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu sem mun renna styrkari stoðum undir allt samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum og efla sameiginlegar varnir bandalagsins.
„Það er brýnt að tryggja að Svíþjóð verði bandalagsríki sem allra fyrst og í síðasta lagi fyrir leiðtogafund bandalagsins í júlí. Aðild Svíþjóðar styrkir sameiginlegar varnir og styrkir okkar öryggi. Norrænt varnarsamstarf er að styrkjast og Ísland hefur lagt ríka áherslu að vera virkari þátttakandi í öllum hliðum þess,“ segir Þórdís Kolbrún.
Rætt var um yfirstandandi vinnu við mótun framtíðarstefnu fyrir norræna varnarsamstarfið og aukna samræmingu á varnarviðbúnaði ríkjanna. Í tengslum við fundinn gáfu ráðherrarnir út sameiginlega yfirlýsingu.