Starfshópur um strok eldislaxa leggur til aukið eftirlit og hertar kröfur
Starfshópur um strok eldislaxa sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði í október sl. hefur skilað tillögum sínum í skýrslu.
Tillögurnar eru 24 talsins og er ætlað að draga úr líkum á stroki eldislaxa. Þær lúta margar að auknu eftirliti og hertari kröfum til eldisferlisins en starfshópurinn leggur einnig til aukna vöktun í ám þar sem strok hefur átt sér stað ásamt auknum heimildum til sýnatöku og greininga.
Hópurinn bar saman regluverk laxeldis hérlendis og erlendis og fékk á fund sinn ólíka hagaðila sem komu með gagnlegar ábendingar. Hópurinn rýndi sérstaklega regluverk í Noregi og gerir skýrslan grein fyrir helstu laga- og reglugerðarákvæðum sem þar eru í gildi.
Skýrslan hefur verið birt til umsagnar inn á Samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 24. júlí nk. Innsendar umsagnir og athugasemdir verða hafðar til hliðsjónar þegar ráðuneytið tekur tillögur starfshópsins til frekari skoðunar, s.s. í tengslum við undirbúning frumvarpa um lagabreytingar á þessu sviði og stefnumótunar lagareldis sem nú er í bígerð.