Hoppa yfir valmynd
23. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þjóðarópera: Ráðgjafaráð og verkefnisstjóri undirbúa stofnun

Auglýst verður eftir verkefnisstjóra til að sjá um undirbúning að stofnun þjóðaróperu auk þess að setja á laggirnar ráðgjafaráð sem vera mun verkefnisstjóra innan handar í ferlinu.

Þórunn Sigurðardóttir verður formaður ráðsins og með henni verða tveir ráðsmenn tilnefndir af BÍL, Bandalagi íslenskra listamanna. Aðalmenn tilnefndir af BÍL eru Þóra Einarsdóttir og Þórunn Gréta Sigurðardóttir en varamenn eru Erling Jóhannesson og Páll Ragnar Pálsson.

„Það er ljóst að fjölmörg sóknarfæri liggja í því að efla umgjörð um óperustarfsemi hér á landi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Umfangsmikil grunnvinna hefur verið unnin um mögulega þjóðaróperu af hendi tveggja starfshópa sem báðir skiluðu tillögum, auk þess hafa fjórar sviðsmyndir verið mótaðar innan ráðuneytisins og kynntar fyrir óperusamfélaginu. Verkefnisstjóri mun geta undirbúið stofnunina ásamt undirbúnings- og ráðgjafanefndinni út frá þeim greiningum og skýrslum sem unnar hafa verið.

Skoða þarf nú nánar, í samstarfi við viðkomandi stofnanir og sérfræðinga í óperustarfsemi, hvaða sviðsmynd væri líklegust til árangurs í íslenskum aðstæðum og í hvernig útfærslu. Einnig þarf að móta ítarlega verkefnaáætlun til að koma þeirri sviðsmynd sem fyrir valinu verður í framkvæmd.

„Það er mikilvægt að halda áfram með markvissum hætti þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram og miðar að því að koma á fót þjóðaróperu. Með ráðningu verkefnisstjóra að þessum undirbúningi verður hægt að móta ramma verkefnisins og kostnaðarþætti, skilgreina uppbyggingu innviða, samstarfsfleti og listræna möguleika,“ segir Þórunn Sigurðardóttir.

Auglýst verður eftir verkefnisstjóra í lok sumars.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta