Ísland áfram í fyrsta flokki í mansalsúttekt bandarískra stjórnvalda
Í nýjustu skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mansal er Ísland annað árið í röð í fyrsta flokki. Árlega gefa bandarísk stjórnvöld út svokallaða TIP-skýrslu (Trafficking in Persons) til að bera saman mismunandi aðstæður varðandi mansal í ríkjum heims. Ríkjunum er raðað í fjóra flokka eftir því hvernig ríkin standa sig í baráttunni gegn mansali að mati bandarískra utanríkisráðuneytisins. Skýrslan byggir á úttekt bandarískra stjórnvalda á öðrum ríkjum þar sem leitað er upplýsinga hjá félagasamtökum, einstaklingum, á vefnum og á svörum frá tilteknum stjórnvöldum. Íslensk stjórnvöld fá skýrsluna ekki til umsagnar áður en hún er birt.
Ísland er nú annað árið í röð í fyrsta flokki og telur bandaríska utanríkisráðuneytið íslensk stjórnvöld þannig uppfylla að öllu leyti lágmarkskröfur þeirra til aðgerða til útrýmingar á mansali í heiminum.
Í skýrslunni segir að íslensk yfirvöld hafi sýnt viðvarandi viðleitni á tímabilinu til að sporna við mansali, m.a. hafi fleiri mál verið rannsökuð og fleiri fórnarlömb hafi fundist. Þá hafi verið komið á fót starfshópum þar sem hagsmunaaðilar frá Norðurlöndum efla samstarf og samræma vinnubrögð í þessum málaflokki. Við komu flóttafólks frá Úkraínu á síðasta ári brugðust yfirvöld við með að dreifa miðum með upplýsingum um hættuna af tengslum fjöldaflótta og mansals, á ensku rússnesku og úkraínsku.