Ísland efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir jafnrétti kynjanna fjórtánda árið í röð
Ísland er í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir jafnrétti kynjanna sem birtur var í síðustu viku. Er þetta fjórtánda árið í röð sem Ísland er á toppi listans.
Listinn byggir á niðurstöðum skýrslunnar Global Gender Gap Report 2023. Þar er borin saman staða jafnréttismála í 146 löndum þegar kemur að stjórnmálum, atvinnu, menntun og heilbrigði.
Gefin er einkunn fyrir stöðu kynjajafnréttis þar sem 100 stig tákna fullkomið jafnrétti. Ísland fær einkunnina 91,2 en næstu lönd eru Noregur með 87,9, Finnland með 86,3 og Nýja Sjáland með 85,6. Meðaleinkunn allra ríkjanna sem skýrslan tekur til er 68,4 stig. Miðað við þróunina myndi fullkomið jafnrétti í heiminum ekki nást fyrr en árið 2154.