Hoppa yfir valmynd
30. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Endurbætur á áningarstaðnum Vilborgarkeldu á Gullna hringnum

Ferðamenn á áningarstað við Vilborgarkeldu - mynd

Undirbúningur er hafinn við hönnun á bættum áningarstað á Gullna hringnum. Staðurinn sem varð fyrir valinu er Vilborgarkelda.

Líkt og sagt var frá í apríl var ákveðið að bæta við einu myndastoppi eða áningarstað við Gullna hringinn í samráðið við Gullna hringborðið, sem er samráðsvettvangur svæðisins sem tók til starfa í vetur.

Ljóst er að úrbóta er þörf á mörgum áningarstaða ferðamanna á Gullna hringnum. Ákvörðun um áningarstað til að breyta á Gullna hringnum var tekin í samræmi við samning á milli menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Vegagerðarinnar.

Vilborgarkelda austan Mosfellsheiðar var valinn einn sá álitlegasti samkvæmt nýrri skýrslu Vegagerðarinnar. Var það meðal annars vegna legu og landeigendamála. Þaðan er mikið útsýni yfir Þingvallavatn.

Á áningarstöðum er hugmyndin að gestir geti stoppað lengur, bekkir og borð eru til staðar á áningarsvæði þannig að gestir geti sest niður og til dæmis nært sig. Endurbóta er þörf á Vilborgarkeldu og þar þarf sérstaklega að huga að umferðaröryggi á svæðinu.

„Það er gríðarlega mikilvægt að vinna að auknu öryggi á þessari fjölförnu leið. Það er von ráðuneytisins að nýr áningarstaður geti hjálpað til við að hægja á umferð og jafna flæði hennar betur um Gullna hringinn. Jafnframt að þetta verkefni geti nýst Gullna hringborðinu og öðrum hagaðilum við frekari vinnu við að bæta flæði umferðar á Gullna hringnum í framtíðinni,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Í skýrslunni var meðal annars farið yfir áhugaverða staði á Gullna hringnum og vinsæl myndastopp ferðamanna skráð. Stöðum var svo í kjölfarið forgangsraðað og einn staður valinn út frá þeirri forgangsröðun. Einnig var lagt til að bætt verði við svokölluðum norðurljósaplönum til að auka umferðaröryggi á þessari rúmlega 200 kílómetra vegalengd.

Skýrslan var unnin af VSÓ Ráðgjöf fyrir hönd Vegagerðarinnar og fjármögnuð af Vörðu sem er samstarfsverkefni á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Sjá einnig: Leggja til úrbætur vegna myndastoppa ferðamanna á Gullna hringnum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta