Hvalveiðar þurfa að vera í samræmi við lög
Matvælaráðuneytið hefur skilað minnisblaði til atvinnuveganefndar Alþingis í framhaldi opins fundar matvælaráðherra með nefndinni sem haldinn var 23. júní sl. Á fundinum gerði ráðherra grein fyrir ákvörðun sinni um tímabundna stöðvun á veiðum langreyða. Ráðherra setti 20. júní sl. bráðabirgðaákvæði við reglugerð um að hvalveiðar hefjist ekki fyrr en 1. september á þessu ári.
Í minnisblaðinu er farið yfir forsendur ákvörðunarinnar og kemur meðal annars fram að ákvörðunin sé tekin á skýrum lagagrundvelli og byggð á málefnalegum sjónarmiðum um dýravelferð. Til grundvallar liggi umfangsmikil og ítarleg gögn um velferð dýra við veiðar á langreyðum ásamt mati sérfræðinga og ráðuneytisins á þeim.
Tilefni bráðabirgðaákvæðisins er afdráttarlaus niðurstaða fagráðs um velferð dýra. Í áliti fagráðsins kemur fram að núverandi veiðiaðferðir á langreyðum uppfylli ekki kröfur um velferð dýra.
Í minnisblaðinu til atvinnuveganefndar er að auki lýst aðdraganda ákvörðunarinnar og greint frá þeirri yfirgripsmiklu úttekt sem gerð hefur verið á veiðunum á síðastliðnu ári. Að auki segir að ljóst sé að á öllum stigum hafi verið þess gætt að ganga ekki harðar fram en nauðsyn bæri til hverju sinni. Í minnisblaðinu segir jafnframt að ráðherra hafi ekki heimild til að leyfa starfsemi sem er í andstöðu við lög.
Minnisblað til atvinnuveganefndar má nálgast hér.