Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2023 Innviðaráðuneytið

Stýrihópur skipaður um gagngera endurskoðun byggingarreglugerðar

Stýrihópur um breytingar á byggingarreglugerð. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur skipað stýrihóp um breytingar á byggingarreglugerð til loka árs 2024. Stýrihópnum er ætlað að vinna tillögur um gagngerar breytingar á regluverkinu og einfalda umgjörð um byggingariðnað í því skyni að lækka byggingarkostnað og leggja grunn að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Hópnum er ætlað að skila tillögum að úrbótum til ráðherra haustið 2024.

Lögð verður áhersla á að tillögurnar muni leiða til framfaraskrefa í bygginga- og mannvirkjagerð til framtíðar en markmiðið er að einfalda stjórnsýslu, auka gæði og neytendavernd og stuðla að aukinni nýsköpun og sjálfbærni. Í vinnu sinni á hópurinn að hafa til hliðsjónar tillögur OECD til úrbóta á lögum og reglum í byggingariðnaði, þ.m.t. að auka sjálfbærni, stafræna stjórnsýslu og gæði.

„Eitt stærsta áherslumálið í sáttmála ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt hann síðustu ár. Ein af forsendum þess að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði er að einfalda regluverkið og auka skilvirkni. Við viljum taka byggingarreglugerðina til gagngerrar endurskoðunar í góðri samvinnu við fag- og hagsmunaaðila,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Vinnuhópar með fag- og hagsmunaaðilum

Stýrihópurinn mun vinna með fag- og hagsmunaaðilum og mynda vinnuhópa um einstök málefni til þess að tryggja samráð og samtal um bestu lausnir. Vinnuhóparnir sem þegar eru farnir af stað munu fjalla um eftirtalin málefni: Hönnunareftirlit, framkvæmda- og notkunareftirlit, lífferilsgreiningar (LCA), orkusparnaður og rekstur og stafræn þróun. Aðrir hópar sem munu fylgja í kjölfarið vinna með eftirtalin málefni: Hollusta og umhverfi, brunavarnir og öryggi í notkun, aðkoma,  umferðarleiðir og innri rými, burðarþol og stöðugleiki, hringrásarhagkerfið og byggingarvörur og tryggingar. Vinnuhópur um stafræna þróun mun starfa þvert á alla hópa.

Stýrihópurinn er skipaður tveimur fulltrúum frá ráðuneytinu, tveimur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), einum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum frá Samtökum iðnaðarins. Hópurinn er skipaður eftirtöldum:

  • Ingveldur Sæmundsdóttir, formaður, innviðaráðuneyti,
  • Björn Karlsson, innviðaráðuneyti
  • Hermann Jónasson, HMS
  • Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, HMS
  • Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Sigurður Hannesson, Samtök iðnaðarins.

Með hópnum starfar Þórunn Lilja Vilbergsdóttir, lögfræðingur hjá HMS.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta