Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2023 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra ávarpaði málþing lýðræðisafla Belarús

Staða Belarús var umræðuefni á málsþingi sem haldið var á vegum skrifstofu Sviatlönu Tsikhanouskayu í Vilníus í morgun. Þórdis Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var meðal frummælenda á fundinum ásamt Tsikhanouskayu, João Cravinho utanríkisráðherra Portúgals, Mantas Adomėnas aðstoðarutanríkisráðherra Litáens og Lauri Tierala ráðherraritara í utanríkisráðuneyti Finnlands.

Sífellt nánari tengsl stjórnar Lúkasjenkó við rússnesk stjórnvöld, viðvera rússnesks herafla í Belarús, yfirvofandi flutningur kjarnavopna þangað, og áhrif þessarar þróunar á fullveldi landsins voru til umfjöllunar á málþinginu sem bar yfirskriftina „Fullveldi Belarús og öryggi Evró-Atlantshafssvæðisins.“ 

Í máli sínu lagði Þórdís Kolbrún áherslu á mikilvægi baráttu lýðræðisafla í Belarús fyrir lýðræðisþróun í heiminum. „Barátta þeirra sem berjast fyrir opnu og lýðræðislegu samfélagi snertir okkur öll sem deilum þeirri trú að opin og lýðræðisleg samfélög bjóði upp á bestu lífsgæðin og feli í sér bæði einstaklingsfrelsi og réttæti. Barátta þeirra sem leggja sig sjálf í hættu til þess að vinna slíku samfélagi brautargengi er ákaflega aðdáunarverð og ég lít á það sem mikilvægt forgansmál í utanríkisstefnu okkar Íslendinga,“ segir Þórdís Kolbrún.

Að loknu málþinginu fór fram athöfn þar sem Sviatlana Tsikhanouskaya sæmdi Þórdísi Kolbrúnu heiðursorðu fyrir stuðning hennar og íslenskra stjórnvalda við lýðræðisöfl Belarús.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta