Sértækar aðgerðir til að jafna aðgengi að sérfræðingum í heilbrigðisþjónustu
Nýta mætti heimildir í lögum um Menntasjóð námsmanna til að veita tímabundnar ívilnanir við endurgreiðslu námslána í þeim tilgangi að fá fleiri sérfræðinga til starfa í heilbrigðisþjónustu, einkum í dreifðum byggðum þar sem er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur skortur á fólki með tiltekna menntun. Þetta kemur fram í tillögum starfshóps á vegum heilbrigðisráðherra sem falið var að gera tillögur um leiðir til að jafna aðgang að ýmiss konar sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði óháð búsetu.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði starfshópinn haustið 2022. Í honum áttu sæti fulltrúar heilbrigðisráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landsambands heilbrigðisstofnana og Byggðastofnunar. Fulltrúi Byggðastofnunar, Reinhard Reynisson, var formaður hópsins.
Skipan og vinna hópsins er ein af aðgerðum byggðaáætlunar, aðgerð A.6 Aðgengi að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði sem hefur það að markmiði að aðgangur að ýmiss konar sérfræðiþjónustu óháð búsetu verði jafnaður. Í lýsingu á aðgerðinni segir að lögð verði áhersla á mikilvægi þess að tryggja ýmiss konar sérfræðiþjónustu, til að mynda þjónustu geðhjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, talmeinafræðinga og sérfræðilækna, á landsbyggðinni.
Í VII. kafla laga um Menntasjóð námsmanna eru ákvæði um sértækar aðgerðir sem lúta að tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána við sérstök skilyrði. Annars vegar er samkvæmt 27. gr. laganna heimilt að beita ívilnuninni ef fyrir liggja upplýsingar um viðvarandi eða fyrirsjáanlegan skort á fólki með tiltekna menntun. Markmiðið er að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til að sækja sér þá tilteknu menntun og til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Hins vegar er samkvæmt 28. gr. laganna heimilt að beita umræddri ívilnun til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Ívilnunin er þá bundin því skilyrði að lánþegi sem búsettur er á viðkomandi svæði nýti menntun sína til starfa í a.m.k. 50% starfshlutfalli í viðkomandi byggð í að lágmarki tvö ár.
Meðal forsendna sem hópurinn lagði til grundvallar er að svæði á landsbyggðinni verði flokkuð sem „rauð svæði“ með tilliti til mönnunar og að sveitarfélög verði í samstarfi við heilbrigðisstofnanir um tillögur um beitingu ívilnana. Lagði hópurinn m.a. til að Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga hefji þegar vinnu við kortlagningu á þörf fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að undirbúa afgreiðslu erinda frá sveitarfélögum.