Tímamótasamningur um tannréttingar
Heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum Sjúkratrygginga og tannréttingasérfræðinga undirrituðu samning um tannréttingar í heilbrigðisráðuneytinu í dag en þetta er í fyrsta sinn sem slíkur samningur hefur verið gerður um þjónustu tannréttingasérfræðinga. Samningurinn felur í sér mikilvæg tímamót og skapar meðal annars forsendur til þess að auka greiðsluþátttöku ríkisins í tannréttingum.
Samningurinn sem er til þriggja ára tekur gildi 1. september n.k og tekur til tannréttingaþjónustu á eigin stofum tannréttingasérfræðinga fyrir sjúkratryggða einstaklinga. Undir samninginn falla bæði almennar tannréttingar barna, þar sem Sjúkratryggingar greiða tannréttingastyrk sem og nauðsynlegar tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Samhliða gildistöku samningsins munu styrkir vegna almennra tannréttinga hækka.
Með tilkomu samnings um tannréttingar er staða sjúklinga styrkt verulega. Til viðbótar við aukna greiðsluþátttöku ríksins í tannréttingum kveður samningurinn á um samstarfsnefnd sem stuðlar að auknu samstarfi og samtali milli hagaðila og tekur á álitamálum sem upp koma varðandi framkvæmd samningsins. Jafnframt er kveðið á um virka þátttöku í þróun stafrænna lausna, nýrrar tækni og nýsköpunar sem leiðir til aukinnar hagkvæmni og gæða í þjónustu.
Vinna við breytingar á gildandi reglugerð nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar stendur nú yfir og stefnt er á að ný reglugerð taki gildi samhliða gildistöku samningsins. Í henni mun koma fram fjárhæð styrks til almennra tannréttinga og nánari útlistun á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga.
Samningurinn byggir á að í gildi sé samstarfsamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands en hann var undirritaður í maí á þessu ári.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra ,,Þetta er mikilvægur samningur sem skapar forsendur til að auka greiðsluþátttöku ríkisins við tannréttingar og draga þannig úr kostnaði þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda, í takt við áherslu ríkistjórnarinnar.“
Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga „Það er ákaflega ánægjulegt að nú hafi í fyrsta sinn tekist að semja um alla þjónustu á sviði tannlækninga og skapa þannig forsendur fyrir aukin stuðning við þá sem mest þurfa á þjónustunni að halda.“