Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2023 Utanríkisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Ísland undirritar samkomulag um vinnudvöl ungmenna í Kanada

Samkomulag milli Íslands og Kanada um vinnudvöl ungmenna (e. Youth Mobility) á aldrinum 18 til 30 ára var undirritað í gær. Samningurinn kveður á um að ungmenni á þessum aldri geti ferðast og starfað í Kanada í allt að 12 mánuði, með möguleika á að framlengja dvölina um 12 mánuði.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem stödd er í Winnipeg í Kanada í tilefni af Íslendingadeginum í Manitoba, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands. Áslaug Arna tekur þar þátt í hátíðarhöldum tengdum Íslendingadeginum, þar á meðal skrúðgöngu, fjallkonuhádegisverði og móttöku formanns Íslendingadagsins, ásamt því að flytja ávarp við hátíðarhöldin.

„Við erum stolt af þessu samstarfi við Kanada. Það gefur íslenskum ungmennum tækifæri á að kynnast ólíkri menningu og víkka sjóndeildarhringinn, ásamt því að gera þeim kleift að ná sér í verðmæta starfsreynslu á alþjóðlegum vettvangi.“ segir Áslaug Arna.

Gert er ráð fyrir því að samningurinn verði innleiddur árið 2024, þegar að allar kröfur hafa verið uppfylltar. Samningurinn er gagnkvæmur, en það var Marie-France Lalonde, þingritari ráðherra innflytjenda, flóttamanna og ríkisborgararéttar sem undirritaði samninginn fyrir hönd Kanada. Hann mun gera 120 ungmennum frá hvoru landi fyrir sig kleift að dvelja og starfa í Kanada eða á Íslandi í allt að 24 mánuði. Samningurinn verður þriðji vinnudvalarsamningurinn sem íslensk ungmenni geta nýtt sér, en þegar eru í gildi slíkir samningar við Bretland og Japan.

Þá styrkir samningurinn enn frekar tengslin milli Íslands og Kanada sem byggjast á góðu samstarfi ríkjanna og sameiginlegum gildum.

  • Ísland undirritar samkomulag um vinnudvöl ungmenna í Kanada - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta