Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherrar Íslands og Japan ræða hreina orku

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Akihiro Nishimura umhverfisráðherra Japans. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tók fyrir helgi á móti Akihiro Nishimura umhverfisráðherra Japans og átti með honum fund. Nishimura var í heimsókn á Íslandi og skoðaði m.a. Þingvallaþjóðgarð og jarðhitavirkjanir í ferð sinni.

Nishimura sagði að Japanir vildu stórauka nýtingu sína á jarðvarma heima fyrir, til að flýta fyrir hreinum orkuskiptum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Japanir stæðu vel hvað varðar tækni til jarðhitanýtingar, en Íslendingar byggju yfir mikilli þekkingu og reynslu á nýtingu jarðhita og því vildu Japanir efla samvinnu ríkjanna á þessu sviði. Guðlaugur Þór tók undir orð Nishimura og sagði Íslendinga vilja aukna samvinnu í þessum efnum.

Guðlaugur Þór skrifaði undir viljayfirlýsingu milli Íslands og Japans um jarðhitasamvinnu í apríl sl. í Reykjavík ásamt Yasutoshi Nishimura efnahagsráðherra Japans.

Umhverfisráðherrarnir ræddu um náttúruvernd og þjóðgarða og nauðsyn þess að finna jafnvægi á milli nýtingar hreinnar orku og verndar náttúrunnar. Japanir vilja tryggja að aukin nýting jarðhita í Japan komi ekki niður á hefðbundnum náttúruböðum í landinu. Guðlaugur Þór sagði að sum svæði þyrfti að vernda gegn nýtingu, en að nýting jarðhita á Íslandi hefði fjölþættan ávinning í för með sér, m.a. uppbyggingu sundlauga og baðstaða og margs kyns nýsköpun.

Ráðherrarnir ræddu einnig um loftslagsmál og voru sammála um nauðsyn þess að ná metnaðarfullum markmiðum um minnkun losunar, þar sem hrein orkuskipti skiptu lykilmáli.

Guðlaugur Þór sótti Japan heim í mars á þessu ári og tók þátt þar í fundi Hringborðs Norðurslóða, auk þess sem hann átti fund með Nishimura umhverfisráðherra og fleiri japönskum ráðamönnum.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta