Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2023 Heilbrigðisráðuneytið

SPOEX styrkt til tækjakaupa vegna meðferðar við psoriasis og exemi

Willum Þór ásamt Arnþóri Jóni Egilssyni formanni SPOEX og Elínu Helgu Hauksdóttur gjaldkera samtakanna - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra heimsótti göngudeild SPOEX, samtaka psoriasis- og exemsjúklinga, þegar tekin voru í notkun ný tæki til meðferðar við psoriasis. Þörf fyrir endurnýjun búnaðarins var orðin brýn og með 15 milljóna króna fjárframlagi frá heilbrigðisráðuneytinu var félaginu gert kleift að kaupa nýja ljósaskápa og nýtt fóta- og handaljósatæki. Allt að 70 manns nýta sér þjónustu göngudeildarinnar nokkrum sinnum í viku hverri og eru komur allt að 200.

Psoriasis er langvinnur bólgusjúkdómur þar sem ónæmiskerfi einstaklingsins byrjar að mynda mótefni gegn eigin frumum. Einkennin birtast yfirleitt í húð sem rauðar upphleyptar skellur þaktar hvítu hreystri, með kláða og jafnvel verkjum. Sjúkdómurinn getur einnig komið fram í liðum, sem psoriasis gigt, eða í líffærum. Árið 2014 skilgreindi Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) psoriasis sem „alvarlegan, sársaukafullan, hamlandi og ólæknandi sjúkdóm“ og samkvæmt rannsóknum Alþjóðahreyfingar psoriasis samtakanna, IFPA, hefur sjúkdómurinn áhrif á daglegt líf hjá 60% þeirra sem greindir eru með hann og telja tæplega 80% sig hafa mætt fordómum vegna sjúkdómsins. Ýmsar meðferðir eru til við sjúkdómnum en engin lækning hefur fundist.

Ljósameðferð hefur reynst mörgum vel og er göngudeildarþjónusta SPOEX veitt samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Endurnýjun tækjabúnaðar er ekki hluti af samningnum og framlag heilbrigðisráðuneytisins til tækjakaupa því mikilvægt til að tryggja áframhaldandi góða þjónustu. Á göngudeild SPOEX starfa tveir heilbrigðismenntaðir starfsmenn. Þar er boðið upp á UVB ljósameðferð undir eftirliti sérfræðings í húðsjúkdómum samkvæmt tilvísun frá húðsjúkdómalæknum, ásamt ráðgjöf og fræðslu.

  • Willum Þór ásamt Arnþóri Jóni Egilssyni formanni SPOEX - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta