Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Veitir Bjarkarhlíð 15 milljóna króna styrk

Halldóra Dýrleif Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Bjarkarhlíðar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, undirrita styrksamkomulagið. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Bjarkarhlíð styrk að upphæð 15 milljónum króna.

Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis 18 ára og eldri. Þar gefst þeim kostur á viðtölum og stuðningi frá fagaðilum, jafningjum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu. Ekki þarf tilvísun til að koma í viðtal. Bjarkarhlíð býður auk þess upp á stuðningshópa fyrir þolendur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi.

Bjarkarhlíð vinnur einnig að því að efla umfjöllun og veita fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis, ásamt því að senda skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið. Bjarkarhlíð býður upp á fyrirlestra og námskeið um birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Bjarkarhlíð hefur reynst mörgum þolendum ofbeldis ómetanlegur stuðningur. Aðsókn í Bjarkarhlíð hefur aukist með hverju ári sem segir okkur að mikil þörf er fyrir þá þjónustu sem þar stendur til boða. Það er mér afar ánægjulegt að geta veitt stuðning til þessarar mikilvægu starfsemi. Ofbeldi á aldrei að líðast.“

Halldóra Dýrleif Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Bjarkarhlíðar:

„Sá fjöldi sem leitar til Bjarkarhlíðar undirstrikar mikla þörf fyrir þjónustuna og þjónustukannanir sýna að það er mikil ánægja með hana. Við getum þakkað það öflugu starfsfólki og góðum samstarfsaðilum.“

Bjarkarhlíð tók til starfa árið 2017 og starfar eftir hugmyndafræði Family Justice Centers en megininntak hennar er að veita þjónustu fyrir þolendur ofbeldis á einum stað, þeim að kostnaðarlausu. Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.

Ráðherra með stjórn Bjarkarhlíðar og fleiri góðum gestum í heimsókn í Bjarkarhlíð. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta