Hoppa yfir valmynd
4. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vel heppnuð hringferð vegna landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks

Fjöldi fólks sótti fundi sem haldnir voru vítt og breitt um landið í tengslum við gerð landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Boðað var til opinna samráðsfunda á níu stöðum, auk þess sem rafrænn fundur fór fram í beinni útsendingu.

Hringferð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hafði það að markmiði að gefa fólki tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun stefnu um þjónustu við fatlað fólk hér á landi.

„Greinilegt er að fólk hafði áhuga á því að fá að koma beint að stefnumótuninni með þessum hætti. Umræðurnar voru stórfróðlegar og okkur barst fjöldi ábendinga, athugasemda og hvatningarorða. Ég er afar þakklátur fyrir móttökurnar. Það var dýrmætt að setjast niður á þennan hátt með notendum þjónustunnar, foreldrum, ættingjum, fagfólki sem vinnur í málaflokknum sem og áhugafólki um málefni fatlaðs fólks,“ segir Guðmundur Ingi.

Fundað var í Reykjanesbæ, Borgarnesi, Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum, Selfossi, Reykjavík, Höfn og Sauðárkróki, auk þess sem rafrænn fundur var sem fyrr segir haldinn fyrir allt landið:

Smellið hér til að horfa á fundinn með íslenskri rauntímatextun. 

Milliliðalaust samtal

Formaður verkefnastjórnar um gerð landsáætlunar, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, segir fundina hafa verið gagnlega og mikilvægt innlegg í vinnuna sem fram undan er.

„Fundaröðinni var ætlað að tryggja milliliðalaust samtal um það sem fólki er efst í huga í málefnum fatlaðs fólks. Nú er verið að taka utan um málaflokkinn með allt öðrum hætti en áður og við fundum það sterkt að fólk er ánægt með það. Það sem segja má að hafi verið leiðarstef í gegnum flesta fundina er mikilvægi þess að tryggja samfellu í þjónustu þegar fötluð börn hætta að vera börn og verða fullorðið fatlað fólk. Annað sem ítrekað kom fram var þörfin á að auka upplýsingagjöf bæði til notenda og á milli kerfa eins og heilbrigðis- og félagsþjónustu,“ segir Guðrún Ágústa.

Auk ráðherra, formanns verkefnastjórnar og starfsfólks félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins tóku þátt í fundunum fulltrúar ÖBÍ réttindasamtaka og Landssamtakanna Þroskahjálpar, meðal annars formennirnir Þuríður Harpa Sigurðardóttir og Unnur Helga Óttarsdóttir.

Alls mættu á fimmta hundrað manns á fundina.

Málin krufin til mergjar á Selfossi

Landsáætlun um innleiðingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli lögfestur á kjörtímabilinu. Undir lok árs í fyrra var hleypt af stokkunum umfangsmikilli vinnu við gerð áðurnefndrar landsáætlunar til að tryggja farsæla innleiðingu samningsins.

Grundvallarhugmyndin er sú að fatlað fólk, hagsmunasamtök þess, ríki, sveitarfélög og almenningur vinni saman sem jafningjar að því að móta tillögur að verkefnum sem bæta stöðu fatlaðs fólks og tengjast samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fyrsti fundurinn fór fram í Reykjanesbæ

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á opnum fundi í Hofi á Akureyri í gær.

Frá fundinum sem fram fór á Akureyri

Bein útsending: Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar; ráðherra; Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka; og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður verkefnastjórnar um gerð landsáætlunar

Spurningar og svör á Sauðárkróki

Samræður í Reykjavík

Landsáætlun og lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks rædd á Höfn

Hádegisfundur á Ísafirði

Ráðherra með framsögu á Egilsstöðum áður en umræður hófust

Málin rædd í Borgarnesi

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, flytur framsögu á fundinum á Akureyri

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, heldur ræðu á Sauðárkróki

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta