Forsætisráðherra fundaði með forsætisráðherra Lúxemborgar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, áttu í dag tvíhliða fund í Lúxemborg. Fundurinn var haldinn í kjölfar samtals forsætisráðherranna í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík í maí sl.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir um tvíhliða samskipti landanna og á hvaða sviðum væri hægt að efla það enn frekar. Þannig var sérstaklega rætt um háskólasamstarf en í síðustu viku undirrituðu Háskóli Íslands og háskólinn í Lúxemborg viljayfirlýsingu um samstarf á sviði smáríkjafræða þar sem stefnt er að skiptum á fræðimönnum og nemendum, og rannsóknarsamstarfi. Einnig var rætt um samvinnu á sviði skapandi greina, einkum í kvikmyndagerð. Í skoðun er að kvikmyndamiðstöðvar landanna geri með sér samning sem auðveldi samvinnu í framleiðslu kvikmynda. Þá ræddu ráðherrarnir um Evrópu- og alþjóðamál, stríðið í Úkraínu, loftslagsmál, jafnréttismál og málefni hinsegin fólks.
Að loknum fundinum ræddu Katrín og Bettel við blaðamenn en í sameiginlegri tilkynningu lýsa þau yfir vilja til að efla samskipti ríkjanna. Ísland og Lúxemborg eigi sér sögu um langt og farsælt samstarf enda byggi löndin bæði á gildum lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins.
Forsætisráðherra mun á morgun heimsækja EFTA-dómstólinn sem hefur aðsetur í Lúxemborg. Þar mun Páll Hreinsson, forseti dómstólsins, taka á móti henni og kynna starfsemina.