Hoppa yfir valmynd
14. september 2023 Matvælaráðuneytið

Aukið eftirlit og rannsóknir í sjókvíaeldi

Aukið eftirlit og rannsóknir í sjókvíaeldi - myndiStock/jirivondrous

Nýbirt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir aukinni fjárveitingu upp á 126 milljónir króna vegna eftirlits í sjókvíaeldi en umfang starfseminnar hefur vaxið hratt síðustu ár.

Aukningin mun gera Matvælastofnun kleift að ráða fleira sérhæft starfsfólk til að sinna eftirliti og stjórnsýslu í samræmi við vöxt greinarinnar. Jafnframt verður fjárfest í tækjum, þekkingu og hugbúnaði. Þetta samræmist stefnumörkun í fiskeldi og niðurstöðum skýrslu Ríkisendurskoðunar á stjórnsýslu sjókvíaeldis.

Með auknum starfmannafjölda mun verða hægt að leggja meiri þunga í eftirlit með gæðakerfum fyrirtækjanna, búnaði, smitvörnum og velferð dýra.

Unnið hefur verið að endurskoðun á eftirliti hjá fyrirtækjum í lagareldi að undanförnu og er verið að innleiða nýjar aðferðir um þessar mundir. Þar á meðal er aukin tíðni óboðaðs eftirlits og notkun neðansjávardróna.

Þá verða framlög til Hafrannsóknarstofnunar aukin um 126 milljónir á næsta ári til þess að styrkja verkefni á sviði burðarþolsmats fjarðakerfa, þ.m.t. eldissvæðaskiptingu, mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis, áhættumat erfðablöndunar og rannsóknir á dreifingu laxa- og fiskilúsar.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra: “Með þessari aukningu stígum við markviss skref til að efla eftirlit með sjókvíaeldi. Þessi skref byggja á markvissri stefnumörkun stjórnvalda í málaflokknum sem hafa sjálfbærni, umhverfissjónarmið og almannahagsmuni að leiðarljósi.”

Gert ráð fyrir að framlög til eflingar stjórnsýslu, eftirlits, leyfisveitinga og rannsókna í fiskeldi verði aukin um 2,2 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Með fjárlögum næsta árs eru stigin mikilvæg fyrstu skref á þeirri vegferð.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta