Dómsmálaráðherra heimsækir Norðurland eystra
Dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, heimsótti nýverið stofnanir ráðuneytisins á Norðurlandi eystra.
Hjá héraðsdómi Norðurlands eystra í Hafnarstræti tók á móti ráðherranum héraðsdómarinn Hlynur Jónsson, í fjarveru dómstjóra Arnbjargar Sigurðardóttur. Ráðherra kynnti sér starfsemi dómstólsins og skoðaði húsakost hans. Héraðsdómur Norðurlands eystra er annasamasti héraðsdómstóllinn utan höfuðborgarsvæðisins og starfa þar að jafnaði tveir dómarar.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Páley Borgþórsdóttir, tók á móti ráðherra í lögreglustöðinni við Þórunnarstræti á Akureyri. Lögreglan á Norðurlandi eystra rekur auk þess starfsstöðvar á Húsavík, Þórshöfn, Siglufirði og Dalvík. Tveir sérsveitarmenn hafa starfað á Akureyri en til stendur að fjölga þeim þannig að fjórir sérsveitarmenn starfi norðan heiða.
Íbúar umdæmisins eru um 32 þúsund talsins í 11 sveitarfélögum og er lengd vegakerfisins um 3.200 km. Í umdæminu eru margir þéttbýlisstaðir og margir vinsælir ferðamannastaðir, auk þess sem mikill fjöldi ferðamanna heimsækir svæðið reglulega. Í máli lögreglustjóra kom fram að málafjöldi hjá embættinu hafi aukist verulega undanfarin ár, mál séu oft orðin alvarlegri, rannsóknir flóknari og viðbúnaður oft þurft að vera meiri. Lögreglustjóri nefndi sem dæmi að á fyrri hluta árs 2023 hefði lögregla vopnast nær fjórfalt oftar en allt árið áður. Hún lýsti áhyggjum manna af verulegri aukningu á ofbeldi og ofbeldishótunum gagnvart lögreglumönnum.
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, Svavar Pálsson, tók á móti ráðherra í Hafnarstræti á Akureyri og síðan á aðalskrifstofu embættisins að Útgarði á Húsavík. Sýslumaður kynnti embættið fyrir ráðherra og fylgdarmönnum hennar og sýndi húsakost á Akureyri sem og á Húsavík. Hjá sýslumanni á Norðurlandi eystra starfa 25 starfsmenn á fimm starfsstöðvum á Akureyri, Húsavík, Siglufirði og Þórshöfn auk viðveru á Dalvík. Fram kom að rekstur allra starfstöðva embættisins byggir á samstarfi eða samrekstri með öðrum ríkisstofnunum eða sveitarfélögum.
Á meðal þeirra sérverkefna sem sýslumannsembættinu hafa verið falin eru greiðsla bóta til þolenda afbrota, meðhöndlun sanngirnisbóta og útgáfa leyfisbréfa til starfsréttinda lögmanna.. Umsjón sérverkefnanna er að mestu leyti sinnt á starfstöð á Siglufirði.
Í heimsókninni spunnust góðar umræður um eflingu sýslumannsembættanna með auknum flutningi verkefna á grundvelli góðrar reynslu. Jafnframt vaxandi tækifærum til stafrænnar vinnslu opinberra verkefna í þágu hagræðingar í ríkisrekstri.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Hlynur Jónsson héraðsdómari, Berglind Harðardóttir aðstoðarmaður dómara, Elísabet Hjálmarsdóttir dómritari og Hreinn Loftsson aðstoðarmaður ráðherra.
Dómsmálaráðherra ásamt Svavari Pálssyni sýslumanni og starfsfólki sýslumanns á Húsavík.