Ísland veitir fjárstuðning til uppbyggingar sjálfbærra fiskveiða í þróunarríkjum
Íslensk stjórnvöld hafa undirritað samning við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) um fjárstuðning til þróunarríkja við að koma á fót sjálfbærri fiskveiðistjórnun. Stuðningurinn nemur 500 þúsund svissneskum frönkum, en Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands í Genf, við sérstakt tilefni ásamt Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastýru Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Þá átti ráðuneytisstjóri sömuleiðis fund með aðstoðarframkvæmdastýru WTO í tengslum við samningaviðræður um ríkisstyrki í sjávarútvegi, sem Einar Gunnarsson fastafulltrúi Íslands í Genf, stýrir.
Haustlota mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hafin
Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins tók þátt í 54. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Genf í vikunni. Hann ávarpaði mannréttindaráðið tvívegis fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá flutti fastafulltrúi Íslands jafnframt sameiginlegt ávarp Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna um stöðu mannréttinda í Afganistan og Súdan.
Ísland á mikið og gott samstarf við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin á vettvangi mannréttindaráðsins og í þessari fundarlotu verða flutt um þrjátíu ávörp í nafni ríkjanna átta. Þá flytur Ísland einnig nokkur ávörp eitt og sér. Ávörpin má lesa á vefsíðu fastanefndar Íslands í Genf.
Í yfirstandandi lotu á Ísland aðild að nýrri ályktun sem fjallar um ólaunaða og launaða umönnunarvinnu sem, falla oftar en ekki í hlut kvenna og er því mikilvægt jafnréttismál. Auk Íslands eiga Argentína, Mexíkó og Spánn aðild að kjarnahópnum.
Ráðuneytisstjóri fundaði jafnframt með Nada Al-Nashif aðstoðarmannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, þar sem meðal annars 75 ára afmæli mannréttindayfirlýsingarinnar, bakslag í jafnréttismálum, málefni hinsegin fólks og mannréttindamál í Afganistan og Íran voru til umræðu. Þá átti ráðuneytisstjóri fund með hópi fastafulltrúa í Genf þar sem framboð Íslands til mannréttindaráðsins og staða og horfur í mannréttindamálum heimsins voru í brennidepli.
Mannréttindaráðið fundar þrisvar á ári, fjórar til sex vikur í senn. Þess utan kemur það saman til að ræða einstök og brýn mannréttindamál. Ísland átti sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um átján mánaða skeið á árabilinu 2018-2019 og sækist nú eftir kjöri í ráðið í heilt kjörtímabil árin 2025-2027. Kosningar fara fram á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna haustið 2024.