Hoppa yfir valmynd
21. september 2023 Innviðaráðuneytið

Ársfundur Jöfnunarsjóðs: Afkoma sjóðsins góð og einum milljarði bætt við til úthlutunar

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga - mynd

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í gær og samhliða fundinum kom út ársskýrsla sjóðsins fyrir rekstrarárið 2022. Vegna góðrar afkomu sjóðsins á árinu samþykkti Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tillögu um að hækka útgjaldajöfnunarframlög ársins 2023 um einn milljarð króna til úthlutunar til sveitarfélaga. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu rúmlega 64 milljörðum króna árið 2022.

Á fundinum var sérstaklega fjallað um frumvarp sem fela í sér breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs og lagt verður fram á haustþingi. Með frumvarpinu er lagt til að reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og starfsemi hans verði færð úr lögum um tekjustofna sveitarfélaga og að sett verði ný heildarlög um sjóðinn. Aðaltillagan er nýtt líkan sem leysir tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs af hólmi og sameinar það í eitt almennt jöfnunarframlag.

Framlög Jöfnunarsjóðs skiptast í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra. Framlög vegna málefna fatlaðra námu rúmlega 23,6 milljörðum kr. á árinu en næst á eftir komu jöfnunarframlög vegna grunnskóla sem námu tæpum 16 milljörðum kr.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði í ávarpi sínu að „vandséð hvernig væri hægt væri reka hér umfangsmikið og þýðingarmikið sveitarstjórnarstig nema fyrir tilstilli sjóðsins eða einhvers sambærilegs kerfis ekki síst í ljósi þess mikla fjölbreytileika sem einkennir íslenska sveitarstjórnarstigið.“

Einfaldara og sanngjarnara kerfi

Sigurður Ingi sagði að mikilvægt að sjóðurinn taki mið af breytingum sem orðið hafa á sveitarstjórnarstiginu. Hann sagði að frumvarp um heildarskoðun á Jöfnunarsjóði væri fyrsta alvöru atlagan að því að búa til einfaldara og sanngjarnara kerfi „sem jafnaði betur stöðu sveitarfélaga með lægri tekjur í samanburði við sambærileg sveitarfélög, þannig að allir íbúar landsins fái notið samskonar þjónustu frá sínu sveitarfélagi, sama hvar þeir búa.“ Ráðherra sagði að tekið yrði tillit til sérstakra áskorana og byggðasjónarmiða og það væri sérstakt áherslumál sitt að hægt væri að bregðast við skyndilegum áföllum í rekstri sveitarfálaga eða svæðum með veikan tekjugrundvöll.

Sigurður Ingi sagði að allar breytingar væru umdeildar og þau sveitarfélög sem fengju lægri tekjur í samkvæmt nýja líkaninu ættu erfitt með að sætta sig við það. Þau verði þó að hafa í huga að aðstæður geta breyst – líka til hins verra – og þá væri gott að búa við sanngjarnara kerfi sem er næmara á slíkar breytingar og grípur sveitarfélögin betur en í núverandi kerfi. Innleiðingin muni einnig taka nokkur ár sem auðveldi sveitarfélögum að aðlagast breytingum.

Ráðherra fjallaði sérstaklega um nýtt ákvæði sem kveður á um að skerða skuli framlög til sveitarfélaga sem ekki fullnýta útsvar sitt. Hann sagði þetta sanngirnismál þar sem að með því yrði tekið fyrir það að sjóðurinn og þar með tekjulægri sveitarfélögin niðurgreiði útsvar fyrir þau sveitarfélög sem kjósa að hafa útsvarið lægra en almennt gerist. 

Framtíðarfyrirkomulag um málefni fatlaðra 

Ráðherra fjallað einnig um einstök úrlausnarefni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga en málefni fatlaðra væru þar efst á baugi. Ríkið hafi þegar bætt við um fimm milljörðum kr. við útsvarið til að bæta afkomu hvað það varðar. Hann lýsti því að mikilvægt væri að ljúka endurskoðunarvinnu um framtíðarfyrirkomulag í þessum málaflokki. Sú vinna færi fram undir yfirstjórn félags- og vinnumarkaðsráðherra og sagði Sigurður Ingi það ósk sína að hægt væri að ljúka þeirri vinnu fyrir áramót. Jöfnunarsjóður gegndi áfram lykilhlutverki á þessum vettvangi. 

Sterk staða Jöfnunarsjóðs

Guðni Geir Einarsson, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, fór yfir störf sjóðsins á árinu 2022 og ársreikning sjóðsins. Hann sagði stöðu sjóðsins sterka og afkomu á rekstrarárinu góða. Eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi í lok árs 2022 nam 1.430 milljónum kr. Af þeim ástæðum var tekin ákvörðun um að hækka útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins vegna ársins 2023 um 1.000 milljónir króna. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu sem fyrr segir rúmlega 64 milljörðum kr. árið 2022.

Guðni Geir sagði frá því að frá og með næstu áramótum færist verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til ríkisins. Sýslumaður á Norðurlandi vestra taki við stjórnsýsluhlutverki stofnunarinnar. Markmiðið er að treysta umgjörð um innheimtu meðlaga, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og efla þjónustu.

Fram kom í máli Guðna Geirs að staða Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs væri mjög sterk og handbært fé sjóðsins í lok árs eru rúmir 3,4 milljarðar kr. Sjóðurinn styrki einnig mikilvæg verkefni tengd aðgengismálum fatlaðra. Í sumar hafi verið samið um að aukinn stuðning við átaksverkefni stjórnvalda og ÖBÍ réttindasamtaka um úrbætur um land allt í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Veittar verða allt að 415 milljónir til úrbótaverkefna út árið 2024. 
Þá hafi sjóðurinn einnig styrkt verkefnið Römpum upp Ísland með veglegum hætti. Markmið þess er að byggja 1.500 rampa um land allt á fjórum árum. Verkefnið gengur vel en nýlega var því fagnað að rampur nr. 800 var vígður á Egilsstöðum samhliða sumarfundi ríkisstjórnarinnar. Loks hafi rampur nr. 815 verið vígður á Sólheimum í upphafi mánaðarins.

Breytingar á reiknilíkani Jöfnunarsjóðs 

Árni Sverrir Hafsteinsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, fjallaði á fundinum nánar um fyrirhugaðar breytingar á jöfnunarlíkani sjóðsins en núverandi reiknilíkan væri að stofni til frá 1990. Sveitarfélögum hafi þá verið 204 en væru nú 64. Þá hafi meðalfjöldi íbúa í sveitarfélagi verið 196 en væri nú 1.296. Sveitarfélög veittu einnig talsvert meiri þjónustu en áður, einkum vegna yfirfærslu grunnskóla og málaflokks fatlaðs fólks.

Ein megintillagan er að sameina þrjú framlög í eitt almennt jöfnunarframlag. Markmiðið væri að einfalda kerfið og auka gagnsæi í jöfnun, þar sem ólíkar forsendur væru metnar heildstætt en ekki hvert í sínu lagi. Sérstök útgjaldajöfnunarframlög, tekjujöfnunarframlög og fasteignaskattsframlög myndu því heyra sögunni til. 

 
  • Árni Sverrir Hafsteinsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta