Hoppa yfir valmynd
21. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland undirritar nýjan hafréttarsamning SÞ um líffræðilega fjölbreytni

Utanríkisráðherra undirritar samninginn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum - myndUN Photo

Utanríkisráðherra undirritaði í gær nýjan samning undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (Biodiversity Beyond National Jurisdiction, BBNJ). Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir undirritaði samninginn í höfuðstöðvum SÞ í New York í Bandaríkjunum, þar sem hún sækir 78. allsherjarþing stofnunarinnar fyrir hönd Íslands.

Um mikil tímamót er að ræða, en samningurinn hefur lengi verið í bígerð. Íslensk stjórnvöld lögðu ríka áherslu á að samkomulagið yrði klárað, í ljósi mikilla hagsmuna þjóðarinnar þegar kemur að heilbrigði hafsins og virðingu fyrir hafréttarsamningnum.

„Ísland á að vera í forystu þegar kemur að alþjóðasamstarfi um málefni hafsins. Það er ekki bara hagsmunamál okkar, heldur höfum við mikið fram að færa og við, eins og aðrar þjóðir sem reiða sig á hafið, höfum stöðugt betri skilning á mikilvægi lífríkis hafsins,“ segir Þórdís Kolbrún en fulltrúar Íslands tóku virkan þátt í samningaviðræðum frá upphafi og höfðu töluverð áhrif á niðurstöðuna. Samninganefnd Íslands skipuðu fulltrúar matvælaráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og utanríkisráðuneytisins, sem veitti henni jafnframt forsæti.

Samningurinn skiptist efnislega í fjóra meginhluta; nýtingu erfðaauðlinda, svæðisbundnar ráðstafanir, þar með talin verndarsvæði, umhverfismat á úthafinu og færniuppbyggingu eða tilfærslu á sjávartengdri tækni svo hún nýtist líka í þróunarríkjum

Þá hefur hann að geyma mikilvæg ákvæði um umhverfivernd á úthafinu sem og regluverk sem styður við ríki heims að ná markmiði sínu um verndun 30% hafsvæða fyrir árið 2030.

Samningurinn tekur gildi þegar 60 ríki hafa fullgilt hann.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta