Hoppa yfir valmynd
21. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Úttektarskýrsla ECRI: Jákvæðri þróun á Íslandi fagnað en ákveðin atriði þó talin áhyggjuefni

Forsíðan á sjöttu úttektarskýrslu ECRI um Ísland. - mynd

Sjötta úttektarskýrsla Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (European Commission against Racism and Intolerance, ECRI) hefur verið birt. ECRI er sjálfstæður eftirlitsaðili á vegum Evrópuráðsins á sviði mannréttinda. Nefndin fagnar jákvæðri þróun á Íslandi frá því að síðasta úttekt var birt árið 2017 og undirstrikar að framfarir hafi orðið og góðar starfsvenjur verið mótaðar á mörgum sviðum. Þrátt fyrir framfarirnar séu ákveðin atriði þó enn talin áhyggjuefni.

Verksvið nefndarinnar er að greina stöðuna í hverju aðildarríki Evrópuráðsins fyrir sig hvað varðar kynþáttafordóma og umburðarleysi og koma fram með ráðleggingar og tillögur um það hvernig best megi bregðast við áskorunum sem í ljós koma. Nefndin kom í vikuheimsókn til Íslands í október 2022 og í skýrslunni er fjallað um stöðuna fram til 30. mars 2023 nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Í samantekt skýrslunnar eru eftirfarandi atriði tiltekin sem framfarir frá síðustu úttekt:

  • Samþykkt nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga um jafna meðferð óháð m. a. kynþætti, þjóðernisuppruna og kynhneigð innan og utan vinnumarkaðar og útvíkkun á umboði Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála.
  • Menntastefna stjórnvalda til ársins 2030 sem byggir á jöfnum tækifærum fyrir alla. Fjölmargar aðgerðir gegn einelti.
  • Margvísleg atriði sem stuðla að réttindum hinsegin fólks, þar á meðal lög um kynrænt sjálfræði og fyrsta aðgerðaáætlun Íslands í málefnum hinsegin fólks.
  • Fjölmargar ráðstafanir á vegum stjórnvalda í tengslum við fræðslu til að koma í veg fyrir hatursorðræðu auk þess sem starfshópi gegn hatursorðræðu var komið á fót.
  • Breyting á almennum hegningarlögum þar sem vernd gegn hatursorðræðu og mismunun var aukin frá því sem áður var, auk breytinga af sama meiði um þau atriði sem líta ber til við ákvörðun refsingar.
  • Aðgerðir stjórnvalda til að bæta inngildingu innflytjenda og flóttafólks með því að koma á fót samræmdu móttökukerfi og straumlínulaga þá þjónustu sem þeim stendur til boða. Skref sem tekin hafa verið af hálfu Reykjanesbæjar varðandi kortlagningu á þörfum þessara hópa eru sömuleiðis nefnd, sem og móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
  • Móttaka stjórnvalda á flóttafólki frá Úkraínu.

Í samantekt skýrslunnar eru eftirfarandi atriði talin áhyggjuefni:

  • Það vantar upp á að almenningur þekki til laga um jafna meðferð og þeirra úrræða sem þau lög boða, til dæmis að geta leitað til kærunefndar jafnréttismála.
  • Einelti gegn hinsegin nemendum á öllum skólastigum, einkum á netinu, veldur vaxandi áhyggjum. Bent er á að hvorki sé til staðar kerfi til að fylgjast með atvikum er varða kynþáttafordóma og umburðarleysi í skólum né samantekt á gögnum um slík atvik.
  • Að mati ECRI hefur hatursorðræða átt sér stað gegn umsækjendum um alþjóðlega vernd og innflytjendum, einkum á netinu og samfélagsmiðlum sem og í pólitískum herferðum. Einnig eru frásagnir um kynþáttafordóma sem byggja á staðalmyndum, sérstaklega hvað varðar múslima.
  • Skortur er á kerfisbundinni og samræmdri nálgun varðandi það hvernig koma megi í veg fyrir kynþáttafordóma og hatursorðræðu gegn hinsegin fólki, þar á meðal á netinu.
  • Áhrif samfélagsmiðla á útbreiðslu hatursorðræðu gegn hinsegin fólki, einkum meðal ungs fólks, veldur sérstökum áhyggjum.
  • Ekki hefur farið fram kerfisbundin gagnasöfnun á fjölda tilkynninga um kynþáttafordóma eða hatursorðræðu gegn hinsegin fólki.
  • Skortur er á heildstæðum og kyngreindum gögnum um innflytjendur sem og vöntun á tímaramma og mælikvörðum í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025.

ECRI-nefndin beinir tilteknum tillögum til stjórnvalda og í samantekt skýrslunnar eru þau meðal annars hvött til að auka vitund meðal almennings um lagarammann gegn mismunun og þau úrræði sem brotaþolum standa til boða, efla viðbrögð sín gegn hatursorðræðu og auka margvíslega gagnaöflun.

Íslensk stjórnvöld hafa móttekið ábendingarnar og munu hafa þær til hliðsjónar við frekari stefnumótun og aðgerðir gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi.

Um heimsóknina

ECRI-nefndin kom í vikuheimsókn til Íslands í október 2022. Nefndin setti bæði upp sína eigin dagskrá og naut fulltingis ráðuneyta við skipulagninguna.

Rætt var við félagasamtök, umboðsmann alþingis, starfsfólk ráðuneyta, Fjölmiðlanefnd og starfsfólk í móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Einnig fengu fulltrúar í nefndinni kynningu frá Reykjanesbæ á starfi sveitarfélagsins og menntastofnana þess með innflytjendum og flóttafólki.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta