Hoppa yfir valmynd
22. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra á viðburði um loftslagsmál og vinnumarkað

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt fundargestum á Spáni í dag. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sótti í dag viðburð í Santiago de Compostela á Spáni þar sem fjallað var um það hvernig stjórnvöld og aðilar á vinnumarkaði geta mætt grænum umskiptum, greitt fyrir framgangi loftslagsmarkmiða og tekist á við tæknibreytingar með samtali allra aðila. Fundinn sátu ráðherrar, háttsettir embættismenn og aðilar vinnumarkaðarins á Spáni og annars staðar í Evrópu.

Þrjár panelumræður fóru fram og fjallaði sú fyrsta um lýðræði á vinnustað, önnur um gervigreind, algrími og vinnu og sú síðasta, sem Guðmundur Ingi tók þátt í, um hvernig hægt væri að ná fram markmiðum í loftslagsmálum í gegnum kjaraviðræður og samtal aðila á vinnumarkaði.

„Mikilvægt er að finna fleiri leiðir til að ná árangri í loftslagsmálum og þar eru fjölmörg tækifæri sem tengjast samvinnu aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda. Á viðburðinum hér úti var til dæmis áhugaverð umræða um lýðræði á vinnustöðum og kjaraviðræður sem verkfæri til að ná markmiðum í loftslagsmálum,“ segir ráðherra.

Ráðherra átti að auki nokkra tvíhliða fundi í dag. Í morgun fundaði hann með Béla Galgóczi, sérfræðingi og rannsakanda hjá European Trade Union Institute á sviði grænna umskipta á vinnumarkaði í Evrópu; Ana Mendes Godinho, ráðherra vinnumála, samstöðu og félagslegs öryggis í Portúgal; og Luka Mesec, ráðherra félags-, fjölskyldu- og vinnumála og málefna jafnra tækifæra í Slóveníu.

Þá hitti ráðherra Cosmin Boiangiu, framkvæmdastjóra ELA sem er Evrópska vinnumálastofnunin.

Fundurinn var haldinn af stjórnvöldum á Spáni þar sem Spánverjar gegna nú formennsku í Evrópusambandinu.

Guðmundur Ingi í panelumræðum um það hvernig ná megi markmiðum í loftslagsmálum í gegnum kjaraviðræður og samtal aðila á vinnumarkaði.

Hópmyndataka.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta