Hoppa yfir valmynd
27. september 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nýtt fangelsi og stórtækar umbætur í fangelsismálum

Páll Winkel, Guðrún Hafsteinsdóttir og Halldór Valur Pálsson. Til vinstri á myndinni er Árni Sæberg fjölmiðlamaður. - mynd

Dómsmálaráðherra og forstjóri Fangelsismálastofnunar héldu nýverið blaðamannafund á Litla Hrauni þar sem kynntar voru stórtækar umbætur í fangelsismálum, með uppbyggingu nýs fangelsis, fjölgun rýma á Sogni og endurskoðun fullnustulaga.

Eftirfarandi kom fram á blaðamannafundinum í máli Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Páls Winkel forstjóra fangelsismálastofnunar.

Nýtt fangelsi verður byggt á Litla-Hrauni

Ítarleg skoðun og greining á aðstöðu á Litla-Hrauni er að baki og er niðurstaðan sú að nauðsynlegt er að ráðast í byggingu nýs fangelsis, sem koma á í staðinn fyrir þá aðstöðu sem nú er á Litla-Hrauni. Hafinn verður undirbúningur að þeirri framkvæmd strax.  Við uppbyggingu nýs fangelsis verður byggt á nútímaþekkingu á sviði betrunar og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga. Mikil áhersla verður lögð á bætt öryggi, ekki síst fanga og starfsfólks fangelsa en jafnframt á bættan aðbúnað heimsóknargesta, þar sem gætt verður sérstaklega að þörfum barna.

Opnum rýmum verður fjölgað á Sogni

Fjölgað verður opnum rýmum í fangelsinu á Sogni, þar sem 14 ný rými verða tekin í notkun á næstu mánuðum en fyrir eru 21 rými. Nemur kostnaður við þá uppbyggingu um 350 m.kr.

Með þessu er meðal annars verið að bregðast við ábendingum frá Umboðsmanni Alþingis en nýlegri skýrslu kom fram að staða kvenna í íslenskum fangelsum væri lakari en staða karla. Með breytingum á Sogni er verið að bæta stöðu kvenna í fangelsum og auka möguleika þeirra á að taka út vistun sína í viðeigandi aðstæðum.

Endurskoðun fullnustulaga og stefnumótun með áherslu á betrun og nútímalega nálgun í refsistefnu

Samhliða umbótum á innviðum fangelsiskerfisins verður farið í endurskoðun  fullnustulaga með áherslu á betrun og nútímalega nálgun. Þá er umrædd endurskoðun tímabær í ljósi reynslu síðustu ára og aðfinnslna eftirlitsstofnana þingsins og alþjóðlegra eftirlitsstofnana.

Í máli Páls kom auk þess fram að þessar umbætur væru þær stærstu í sögu íslenskrar fullnustu. Fangelsið á Litla Hraun hefði upphaflega átt að vera sjúkrahús og uppbygging þar hefði einkennst af bútasaumi sem svaraði ekki kalli um nútímalega fullnustu og betrun fanga.

 

Heimsóknir ráðherra í fangelsin

Í aðdraganda þessa blaðamannnafundar heimsótti Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra fangelsin á Hólmsheiði, Sogni og Litla Hrauni. Ráðherra og fylgdarlið hennar fékk kynningu á umfangi og eðli starfseminnar á hverjum stað og farið var í kynnisferð um svæðið. 

 

Á Sogni. Halldór Valur Pálsson fostöðumaður fangelsa, Guðný Ingvarsdóttir aðstoðarvarðstjóri, Guðrún Hafsteinsdóttir og Páll Winkel forstjóri. 

Dómsmálaráðhera og fylgdarlið á Litla Hrauni ásamt starfsfólki Fangelsismálastofnunar.

Ábúðamikill forstjóri tekur á móti ráðherra á Hólmsheiði.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta