Hoppa yfir valmynd
29. september 2023 Innviðaráðuneytið

Leiðbeiningar gefnar út um þjónustustefnu sveitarfélags

Fyrirmynd og leiðbeiningar um gerð þjónustustefnu sveitarfélags hafa verið birt á vef innviðaráðuneytisins. Byggðastofnun vann leiðbeiningarnar, að beiðni ráðuneytisins, í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing.

Með lögum nr. 96/2021 sem tóku gildi í júní 2021 samþykkti Alþingi nýtt ákvæði við sveitarstjórnarlög sem fjallar um þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags. Samkvæmt 130. gr. a sveitarstjórnarlaga, skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú árin eftir það, um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum viðkomandi sveitarfélags.

Markmið ákvæðisins er rakið í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 96/2021. Þar kemur fram að með fækkun sveitarfélaga kunni að myndast víðáttumikil sveitarfélög, mögulega með fáum og stórum byggðakjörnum, en viðkvæmari byggð á öðrum svæðum innan sveitarfélaganna. Því er mikilvægara en áður að stefna sveitarstjórnar varðandi þjónustustig á slíkum svæðum verði skýr og komi til sérstakrar umræðu.

Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að það sé á ábyrgð sveitarstjórnar að móta heildarstefnu fyrir hverja byggð eða byggðarlagi fyrir sig og gera grein fyrir ætluðu þjónustustigi vegna einstakra verkefna sem sveitarfélagið hyggst veita á viðkomandi svæðum, t.d. skólahalds, ferða skólabíla, opnunartíma sundlauga, reksturs félagsheimila o.s.frv. Með ákvæðinu sé lagt í hendur sveitarfélaga að ákvarða hvort og hvernig svæði verði skipt frekar upp með tilliti til þjónustustigs, svo sem með því að flokka svæði eftir ákveðinni fjarlægð frá byggðakjarna eða miða við eldri skipan sveitarfélaga eða hreppa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta