Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga birt í samráðsgátt stjórnvalda
Drög að frumvarpi sem auðvelda á greiðsluaðlögun einstaklinga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Um er að ræða breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.
Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem glíma við verulega fjárhagserfiðleika. Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett árið 2010, þar sem knýjandi þörf var fyrir úrræði til að takast á við þann vanda sem til kom vegna bankahrunsins árið 2008 og efnahagskreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. Markmið lagasetningarinnar var jafnframt að lögfesta varanlegt úrræði til framtíðar handa einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum. Í kjölfarið var embætti umboðsmanns skuldara komið á fót.
Yfir 8.600 umsóknir um greiðsluaðlögun hafa borist embættinu frá upphafi og úrræðið margsannað mikilvægi sitt. Jafnframt hefur orðið ljóst að löggjöfin sjálf þarf að þróast í takt við breytt umhverfi og þarfir umsækjenda.
Skýrari og skilvirkari málsmeðferð
Meginefni breytinganna á löggjöfinni sem nú eru lagðar til snýr að því að gera úrræðið um greiðsluaðlögun einstaklinga að heildstæðari lausn en nú er og að málsmeðferð verði skýrari og skilvirkari. Markmiðið er að betrumbæta úrræðið umsækjendum til hagsbóta. Í því skyni eru lagðar til nokkuð umfangsmiklar breytingar á ýmsum ákvæðum núgildandi laga. Nýjum ákvæðum er bætt við og úrelt ákvæði eru felld brott eða ákvæði sem reynslan hefur sýnt að nýtast ekki sem skyldi.
Gert er ráð fyrir að fleiri geti sótt um greiðsluaðlögun en nú er, auk þess sem lagt er til að málsmeðferð vegna breytinga á samningum til greiðsluaðlögunar verði breytt skuldurum í hag. Er það gert til að auðvelda einstaklingum að standa í skilum við samninga sína og fá þeim breytt þegar þörf er á.
Í frumvarpinu er jafnframt brugðist við þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu þegar greiðslubyrði veðlána fer hækkandi vegna hás vaxtastigs og því lagt til nýtt ákvæði um gjaldfrest eða lægri afborganir veðlána. Um nýmæli er að ræða þess efnis að umsjónarmanni greiðsluaðlögunar verði heimilt að leggja til í samningi um greiðsluaðlögun að greidd verði tímabundið lægri mánaðargreiðsla til greiðslu veðkrafna eða veittur sé gjaldfrestur á þeim.
Einnig eru lagðar til breytingar á málsmeðferð vegna yfirveðsettra fasteigna, með vísan til þeirra reynslu sem hefur skapast.
Frumvarpið var unnið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í nánu samráði við embætti umboðsmanns skuldara sem annast framkvæmd úrræðisins.
Hægt er að senda inn umsögn um frumvarpið til 13. október nk.