Greining og endurskoðun á almannavarnakerfi landsins fram undan
Fram undan er heildstæð greining á íslenska almannavarnakerfinu, helstu kostum þess og göllum. Dómsmálaráðuneytið hefur falið ARCUR ráðgjöfum að leiða vinnuna og munu þeir eiga í miklu og breiðu samstarfi við helstu viðbragðsaðila og viðeigandi stjórnvöld. Stýrihópur skipaður fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórafélags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur yfirumsjón með verkefninu og verður ARCUR innan handar með úrvinnslu. Stefnt er að því að þessu umfangsmikla verkefni verði lokið fyrir árslok 2023 og hefst þá vinna við lagafrumvarp.
"Á þessu ári eru 60 ár síðan fyrstu almannavarnalögin tóku gildi og gríðarlega margt hefur breyst á þessum tíma. Reynsla undanfarinna ára af snjóflóðum, eldgosum, skriðuföllum og ofsaveðrum hefur sýnt styrk almannavarnakerfisins en um leið sýnt okkur mikilvægi þess að nýta þá reynslu til heildarendurskoðunar á kerfinu. Nú gefst ómetanlegt tækifæri til þess fyrir viðbragðsaðila og stjórnvöld um land allt."
Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna
Samráðsfundir um allt land
ARCUR og fulltrúar ráðuneytis og Almannavarnadeildar munu heimsækja viðbragðsaðila og viðeigandi stjórnvöld í hverjum landshluta og eiga með þeim uppbyggilega fundi um almannavarnakerfið. Sóst verður eftir því að ná góðu samtali um helstu kosti og galla kerfisins og jafnframt sátt um meginþætti þess í stórum dráttum varðandi skipulag, ábyrgð og hlutverk lykilaðila.
Áríðandi könnun sem þarf að svara
Ábyrgðar- og viðbragðsaðilum hefur nú borist könnun sem mikilvægt er að sé svarað hratt og örugglega. Niðurstöður hennar munu liggja til grundvallar áframhaldandi vinnu. Mjög áríðandi er að þar til bærir aðilar svari þeim spurningum sem að þeim snúa til þess að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinganna. Mikilvægt er að svör berist eigi síðar en á lokadegi könnunarinnar sem ráðgerður er þann 9. október nk.
Á næstunni verður leitað til viðbragðsaðila um allt land til þess að skipuleggja samráðsfundi ábyrgðar- og viðbragðsaðila í hverju umdæmi. Mikilvægt er að tryggja góða mætingu og framgang þessa mikilvæga verkefnis.
Vefsíða verkefnisins
Sett hefur verið upp sérstök vefsíða fyrir greiningar- og endurskoðunarverkefnið. Þar er hægt að komast í samband við verkefnastjórana og með tíð og tíma sjá hvernig verkefninu vindur fram.
Vefslóðin er stjornarradid.is/almannavarnir