Hoppa yfir valmynd
5. október 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Viðsnúningur á háskólastigi forsenda öflugri nýsköpunar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Ný skýrsla OECD um menntamál, Education at a Glance 2023, leiðir í ljós að Ísland sker sig frá öðrum OECD löndum að því leyti að nær hvergi eru fleiri karlar aðeins með grunnskólapróf og að aðeins á Íslandi, í Suður-Kóreu og í Póllandi fer karlmönnum með háskólapróf hlutfallslega fækkandi á milli áranna 2015 og 2022. Þá situr Ísland í 87. sæti af 132 löndum þegar kemur að hlutfalli háskólanema sem útskrifast úr STEM-greinum (vísinda- og tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði) samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðahugverkastofunnar, auk þess að vera eina Norðurlandið sem ekki færist ofar á lista stofnunarinnar yfir mest nýskapandi lönd heims milli ára.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vakti athygli á þessari þróun á Sjávarútvegsdeginum sem haldinn var í gær en yfirskrift dagsins í ár var Nýsköpun í sjávarútvegi. ,,Reikningsdæmið er einfalt: ef samfélagið opnar ekki augun fyrir því að við erum að dragast aftur úr þegar kemur að undirstöðu nýsköpunar og verðmætasköpunar - menntakerfinu- þá missum við af lestinni í samkeppni þjóða,” sagði ráðherra í ávarpi sínu.

Ísland eftirbátur annara OECD þjóða þegar kemur að fjölda háskólamenntaðra ungra karla

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur á kjörtímabilinu ítrekað undirstrikað mikilvægi þess að þessari þróun verði snúið hér á landi, enda er lágt hlutfall ungra karlmanna sem lokið hafa háskólanámi eina ástæða þess að Ísland er eftirbátur annarra OECD landa þegar kemur að fjölda háskólamenntaðs ungs fólks. Ráðist hefur verið í ýmsar aðgerðir sem stuðla að hvatningu til ungra karlmanna til að sækja sér háskólamenntun sem og hvatningu til háskólanna til að ná til þessa markhóps með námsúrvali, námsleiðum og stuðningi. Í vor var ungt fólk, sérstaklega strákar, t.a.m. hvatt til að bíða ekki með háskólanám með átakinu Heimurinn stækkar í háskóla. Hlutfall karlkyns umsækjenda um nám í Háskóla Ísland hækkaði um yfir 13% milli ára eftir skráningu nýnema í haust sem m.a. má rekja til átaksins og umræðu í kjölfar þess. Education at a Glance skýrslan undirstrikar þó að Ísland á enn langt í land til að standast samanburð við önnur OECD lönd, sér í lagi Norðurlöndin.

Alvarleg staða Íslands

Skýrsla OECD tekur til þróunar á tímabilinu 2015-2022 og sýnir að hlutfall fólks á Íslandi sem hafa lokið háskólanámi hækkar úr 38% í 41% á tímabilinu. Þessa hækkun má þó alfarið rekja til stóraukins hlutfalls háskólamenntaðra kvenna (úr 46% í 55%) þar sem hlutfall háskólamenntaðra karla lækkar úr 30% í 29%. Þessi þróun er ólík öllum öðrum OECD löndum, að Póllandi undanskildu, þar sem bæði karlar og konur ljúka nú háskólanámi í auknum mæli.

Hlutfall fólks á Íslandi sem er aðeins með grunnskólamenntun lækkar úr 27% í 23% á tímabilinu. Það er hins vegar sláandi að hlutfall karla sem aðeins hafa grunnskólamenntun lækkar aðeins um 1%, úr 32% í 31%, á meðan hlutfall kvenna fer úr 21% í 14% og útskýrir því að langmestu leyti þá lækkun sem á sér stað. Aðeins í Kosta Ríka og Mexíkó eru fleiri karlar einungis með grunnskólapróf og aðeins á Spáni og í Tyrklandi er þetta hlutfall svipað og á Íslandi.

Hefur áhrif á allt atvinnulífið

Ráðherra vakti athygli á lágu hlutfalli ungra karla sem lokið hafa háskólanámi á Iðnþingi fyrr á árinu. 

,,Þörf er á 9.000 sérfræðingum í hugverkaiðnaði á næstu árum sem hefur áhrif á allt atvinnulífið,” sagði ráðherra. ,,Eitt af mikilvægustu markmiðum mínum sem ráðherra er að mannauður hamli ekki vaxtatækifærum Íslands. Það er því mikilvægt að stjórnvöld, atvinnulífið, menntastofnanir og aðrir angar samfélagsins leiti leiða til að hvetja drengi á Íslandi til að sækja sér menntun. Ef hlutfall ungra karla á Íslandi sem lokið hafa háskólanámi væri í takt við meðaltal OECD væru spár um þörf á sérfræðingum á næstu fimm árum töluvert öðruvísi. Hærra hlutfall háskólamenntaðra ungra karla myndi bera með sér um 7.500 nýja sérfræðinga af þeim 9.000 sem vantar eins og staðan er í dag. Þetta er því grjóthart efnahagsmál sem ber að horfast í augu við af fullri alvöru.”

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta