Ný sjúkradeild og slysa- og bráðamóttaka við HSS
Lokið er viðamiklum endurbótum við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sem stórbæta aðstæður sjúklinga og starfsfólks stofnunarinnar. Tímamótunum var fagnað þegar teknar voru í notkun ný sjúkradeild og slysa- og bráðamóttaka í D-álmu stofnunarinnar. Auk þessa er geðheilsuteymi stofnunarinnar komið í stærra og betra húsnæði við Hafnargötu 90.
Fjölmennt var við opnunina og vel tekið á móti gestum sem gafst kostur á að skoða nýtt og endurbætt húsnæði undir leiðsögn forstjóra og starfsfólks. Markús Ingólfur Eiríksson forstjóri HSS sagði frá framkvæmdunum og lýsti því hvað þetta er stór og mikilvægur áfangi fyrir starfsemi stofnunarinnar og þeirra sem þjónustu hennar njóta. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fékk þann heiður að innsigla formlega opnun nýs húsnæðis. Í stuttri ræðu lagði hann áherslu á hvað Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er mikilvæg stoð í heilbrigðiskerfinu og gegni stóru og vaxandi hlutverki. Sú uppbygging sem nú væri orðin að veruleika myndi styrkja stofnunina enn frekar. Eggert Eyjólfsson bráðalæknir kynnti síðan starfsemi slysa- og bráðamóttökunnar og fór yfir ýmsa þætti varðandi starfsemi hennar og þann mikla ávinning sem opnun nýrrar deildar felur í sér.
Stærð bráðamóttökunnar þrefaldast og rýmum fjölgar
Með endurbótunum hefur sjúkradeildin verið flutt milli hæða og er nú í húsnæði sem hefur verið hannað og innréttað frá grunni fyrir starfsemi hennar. Sama máli gegnir um slysa- og bráðamóttökuna sem hefur jafnframt fengið þrefalt stærra rými undir starfsemina en áður. Með breytingunum skapaðist jafnframt möguleiki til að opna 10 ný hjúkrunarrými fyrir 10 einstaklinga þar sem sjúkradeildin var áður.
Á liðnu ári náðist einnig mikilvægur áfangi í uppbyggingu og endurbótum við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með opnun nýrrar röntgendeildar. Með henni varð bylting bæði í starfsaðstöðu og tækjabúnaði en þá var einnig tekið í notkun nýtt röntgentæki með auknum myndgæðum og hraðari þjónustu.