Friðarráðstefna í Hörpu: „Alþjóðleg samstaða og samvinna lykilatriði“
Norræn samstaða um frið er umfjöllunarefni fjölmennrar friðarráðstefnu sem nú stendur yfir í Hörpu og er send út í beinu streymi. Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands heldur ráðstefnuna í samstarfi við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Yfirskrift íslensku formennskunnar er „Norðurlönd – afl til friðar“. Ráðstefnan hófst í gær og lýkur síðdegis.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti opnunarávarp ráðstefnunnar í gærmorgun. Þar vék hún máli sínu meðal annars að því hvernig friður og lýðræði eigi undir högg að sækja í heiminum um þessar mundir. „Í krefjandi umhverfi þar sem slíkt er raunin eru alþjóðleg samstaða og samvinna lykilatriði. Við eigum að setja stefnuna í átt að friði, ekki frekari hernaði. Slíkt krefst mikillar vinnu og átaks sem við verðum öll að leggja okkar af mörkum til.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, tók sömuleiðis þátt í opnunarathöfninni.
„Friður er grundvallaratriði fyrir velferð og velmegun mannkyns. Nú, þegar friði í Evrópu er ógnað á þann hátt sem við höfum ekki orðið vitni að síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk, er mikilvægt að við aukum áherslu á frið á pólitískum vettvangi,“ sagði hann í ávarpi sínu og minnti á að friður og öryggi væru grunnþættir þess að lifa góðu lífi.
„En fyrir mörg er þetta fjarlægur draumur eða jafnvel aðeins sýn, eitthvað sem þau hafa aðeins heyrt um, en hafa aldrei upplifað á ævinni. Og fleiri og fleiri börn fæðast inn í slíkan veruleika,“ bætti hann við.
Aðalræðu flutti síðan Amina J. Mohammed, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Alþjóðlegar áskoranir
Í opnunarávarpi fyrir pallborðsumræður um alþjóðlegar áskoranir og frið á 21. öldinni sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að slíkum áskorunum færi ekki aðeins fjölgandi heldur væri alvarleiki þeirra orðinn meiri og vísaði meðal annars til árásar Hamas á Ísrael og innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu.
„Það er nauðsynlegt að standa vörð um meginreglur okkar um lýðræði – jafnrétti og virðingu fyrir mannréttindum – til að viðhalda friðsælu og farsælu samfélagi. Við verðum einnig að efla viðleitni okkar til að takast á við hnattrænar áskoranir í átt til friðar með því að takast á við ójöfnuð, sárafátækt, matvæla- og orkuóöryggi og aðra áhættuþætti sem fylgja óstöðugleika og átökum. Við verðum að tryggja að enginn verði útundan, að allir skilji að við erum sterkari sameinuð en sundruð,“ sagði Þórdís Kolbrún.
„Mestu máli skiptir þó að tryggja gangvirki hins alþjóðlega regluverks og að samskipti þjóða heims grundvallist áfram á virðingu fyrir alþjóðalögum,“ sagði utanríkisráðherra jafnframt í ræðu sinni.
Ráðstefnan er skipulögð í samstarfi við helstu friðarrannsóknarstofnanir á Norðurlöndunum og ber yfirskriftina The Imagine Forum: Nordic Solidarity for Peace.
Þátttakendur koma vítt og breitt að og hafa mikla reynslu af málefninu. Meðal erlendra þátttakenda eru:
-
Bruno Stagno Ugarte, talsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch
-
Sanam Naraghi Anderlini, stofnandi og framkvæmdastjóri The International Civil Society Action Network (ICAN)
-
Dag Nylander, framkvæmdastjóri Norwegian Centre for Conflict Resolution sem meðal annars vann sem sáttamiðlari við friðarferla í Kólumbíu
- Pashtana Durrani, mannréttindafrömuður, aktívisti og stofnandi samtakanna Learn Afghan
-
Mahbouba Seraj, fjölmiðla- og kvenréttindakona frá Afganistan
-
Andriy Sadovyy, borgarstjóri Lviv í Úkraínu
-
Jannie Lilja, rannsóknastjóri hjá friðarrannsóknastofnuninni í Stokkhólmi, SIPRI
Markmið friðarráðstefnunnar er að leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig efla megi norrænt samstarf í þágu friðar.