Skipun starfshóps um könnun á fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja
Innviðaráðherra hefur skipað starfshóp um könnun á fýsileika jarðganga á milli lands og Vestmannaeyja. Skipunartími starfshópsins er frá 15. september og nær til verkloka sem eru áætluð eigi síðar en 31. júlí 2024. Hópurinn hefur þegar hafið störf og fundaði föstudaginn 6. október síðastliðinn.
Starfshópurinn hefur það hlutverk að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur og kosti og galla hverrar fyrir sig. Þá á starfshópurinn að leggja fram kostnaðarmetna áætlun um þær rannsóknir og greiningar sem framkvæma þarf, svo hægt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja. Starfshópurinn mun skila innviðaráðherra skýrslu um niðurstöður starfshópsins, valkostum, arðsemismati og tillögum að næstu skrefum, byggt á fyrirliggjandi vísindagögnum og nýjustu upplýsingum.
Starfshópinn skipa:
- Kristín Jónsdóttir, formaður, án tilnefningar,
- Freysteinn Sigmundsson, án tilnefningar,
- Freyr Pálsson, tilnefndur af Vegagerðinni,
- Anton Kári Halldórsson, tilnefndur af Rangárþingi Eystra,
- Gylfi Sigfússon, tilnefndur af Vestmannaeyjabæ.
Björn Ágúst Björnsson verkfræðingur og sérfræðingur í arðsemisgreiningum mun starfa með hópnum.