Breyting kynnt á reglugerð um framleiðslu og markaðssetningu smáframleiðenda
Að höfðu samráði við Samtök smáframleiðenda matvæla og félag heimavinnsluaðila, Beint frá býli, hefur Svandís Svavarsdóttir matvælaráðaherra lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á reglugerð um framleiðslu og markaðssetningu smáframleiðenda.
Ákveðið ósamræmi hefur verið til staðar á milli heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga hvað varðar túlkun reglugerðarinnar vegna leyfisveitinga á matarmörkuðum. Gat þessi munur haft kostnaðarauka í för með sér fyrir þá framleiðendur sem sýna á matarmörkuðum.
Með nýkynntum reglugerðardrögum er lagt til að framleiðendur, með gilt starfsleyfi frá sínu heilbrigðisumdæmi, geti selt forpakkaðar vörur sínar á matarmörkuðum þar sem skipuleggjendur eru með leyfi frá heilbrigðiseftirliti viðkomandi svæðis fyrir viðburðinum.
Þessi breyting á reglugerðinni tryggir að framvegis verði jafnræði á landsvísu þegar kemur að leyfisveitingu fyrir sölu forpakkaðra matvæla á matarmörkuðum.
Drög að breytingu reglugerðarinnar eru í samráðsgátt.