Lyklaskipti í utanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti
Þórdís Kolbrún hefur gegnt embætti utanríkisráðherra frá 28. nóvember 2021. Hún var áður ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra frá 11. janúar 2017 til 28. nóvember 2021. Hún er þriðja konan til að gegna embætti fjármálaráðherra.
„Þú ert að taka við stórkostlegu ráðuneyti með framúrskarandi fólki, sem er ótrúlega vel mannað bæði hérna á Íslandi og úti um allan heim,” sagði Þórdís Kolbrún þegar hún afhenti Bjarna Benediktssyni lyklana að utanríkisráðuneytinu í dag. „Þetta hafa verið viðburðaríkir tímar, þar sem ég hef lagt áherslu á að Ísland tali skýrt og nýti tækifærin sem gefast til að leggja sitt af mörkum. Ég kveð vinnustaðinn með ólýsanlegu þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að leiða þetta framúrskarandi lið sem er íslenska utanríkisþjónustan í tæplega tvö ár.”
„Ég veit að ég tek hér við mjög góðu búi í stóru og vel mönnuðu og öflugu ráðuneyti,“ sagði Bjarni eftir að hafa tekið við lyklavöldum að utanríkisráðuneytinu. „Ég hlakka til að takast á við þau mörgu og spennandi verkefni sem hér bíða mín, í ráðuneyti sem mikið hefur reynt á að undanförnu.”
Bjarni Benediktsson hefur gegnt embætti fjármála- og efnahagsráðherra frá 30. nóvember 2017 og áður frá 23. maí 2013 til 11. janúar 2017. Bjarni var forsætisráðherra frá 11. janúar 2017 til 30. nóvember 2017.
Þegar hann afhenti Þórdísi Kolbrúnu lykla að fjármála- og efnahagsráðuneytinu sagðist hann hlakka til að fylgjast með henni í störfum fjármála- og efnahagsráðherra. „Ég hef mikla trú á þér og að þér muni farnast vel í starfi með því öfluga starfsfólki sem hér er. Gangi þér vel,“ sagði Bjarni.
„Ég veit að ég er að taka við góðu búi og að hér er tekið á móti mér af framúrskarandi fólki. Hafandi verið ráðherra í bráðum sjö ár þá hafa leiðir mínar stundum legið hingað inn enda fara allra handa verkefni í gegnum fjármálaráðuneytið. Þetta er risastórt verkefni og mikil áskorun sem ég hlakka gríðarlega til að takast á við,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr fjármála- og efnahagsráðherra.