Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Ísland
Áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta hér á landi með breytingum á náttúrufari og lífsskilyrðum fólks, með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Þetta kemur fram í skýrslu sem vísindanefnd um loftslagsbreytingar afhenti Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á blaðamannafundi í Grósku í dag.
Í maí 2021 var skipuð nefnd vísindafólks sem falið var að vinna að gerð fjórðu vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Líkt og skýrslur fyrri vísindanefnda tekur hún mið af reglulegum matsskýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), auk þess að byggja á víðtæku samráði við íslenskt vísindasamfélag.
Í skýrslunni kemur fram að til að tryggja að áskoranir vegna loftslagsbreytinga verði ekki meiri en við er ráðið, þurfi umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna. Þar gegni stjórnvöld, atvinnulíf og stefnumótendur lykilhlutverki, en draga þurfi úr losun eins hratt og unnt er og aðlaga samfélagið þannig að það ráði við álagið. Loftslagsvá sé viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þurfi andvaraleysi gagnvart áhættunni.
Loftslagsbreytingar hafa að sögn skýrsluhöfunda haft umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, s.s. afkomu jökla, vatnafar, lífríki á landi og aðstæður í sjó. Þá skapi áhrif loftslagsbreytinga á atvinnuvegi, uppbyggða innviði og efnahag verulegar áskoranir, jafnvel í þeim geirum þar sem viðbrögð við hlýnun geta haft jákvæð áhrif í för með sér. Eins geti sjávarstöðubreytingar og aukin náttúruvá aukið samfélagslegt tjón. Loks geti áhrif loftslagsbreytinga erlendis skapað umtalsverða kerfisáhættu hérlendis, t.d. með áhrifum á aðfangakeðjur, fæðuöryggi og lýðheilsu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
„Niðurstöður skýrslunnar eru ekki óvæntar. Loftslagsbreytingar hafa áhrif og við ætlum byggja upp samfélag sem er undirbúið fyrir þær breytingar sem eru þegar farin að hafa áhrif á samfélagið hér líkt og annars staðar. Einnig komu út fyrr á árinu tvær skýrslur frá ráðuneytinu um aðlögun að loftslagsbreytingum og náttúruvá. Þær skýrslur, líkt og þessi sem nú er verið að afhenda, eru nauðsynlegar til að við höfum sem bestar upplýsingar. Við verðum að skipuleggja okkur til langs tíma og þær áætlanir verða að vera byggðar á traustum grunni þekkingar. Ráðuneytið mun nú taka skýrsluna og rýna með það að markmiði að styrkja stefnumótun og áætlanagerð vegna áskorana í loftslagsmálum þvert á stjórnarráðið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagráðherra.