Fyrsta verk nýs utanríkisráðherra í embætti
Góð tvíhliða samskipti Íslands og Úkraínu og mikilvægi þess að halda þeim áfram var leiðarstef í samtali Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu á símafundi þeirra í dag, sem jafnframt var fyrsta verk Bjarna í embætti utanríkisráðherra.
Með símtalinu undirstrikaði ráðherra stuðning Íslands við Úkraínu vegna árásarstríðs Rússlands í landinu. Notaði ráðherra einnig tækifærið til að lýsa yfir stuðningi við inngöngu Úkraínu í Atlantshafsbandalagið. Þá ræddu ráðherrarnir um nýtt færanlegt neyðarsjúkrahús sem kostað er af íslenskum stjórnvöldum og hannað og framleitt í Eistlandi en til stendur að afhenda sjúkrahúsið í nóvember.
Í lok samtalsins þakkaði utanríkisráðherra Úkraínu kærlega fyrir þann mikla stuðning sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt Úkraínu í verki undanfarin misseri og kom Bjarni Benediktsson því skýrt á framfæri að þeim stuðningi yrði framhaldið af honum í krafti embættis utanríkisráðherra.
Thank you @DmytroKuleba. Rest assured Iceland continues to stand in full solidarity with Ukraine against Russia’s illegal invasion & firmly supports Ukraine’s aspirations to join NATO as Euro-Atlantic security is best served with Ukraine as a NATO Ally. #SlavaUkraïni https://t.co/NBhMV22gIm pic.twitter.com/w6ep0ZpC58
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) October 18, 2023