Nú er hægt að sækja um vegabréf á Ísland.is
Sýslumenn og Þjóðskrá hafa nú opnað fyrir forskráningar og greiðslu fyrir vegabréfsumsóknir á Ísland.is. Þetta mun stytta og einfalda umsóknarferli vegna vegabréfa til muna auk þess sem forsjáraðilar þurfa ekki báðir að mæta með börnum til sýslumanns.
Þegar skráningu á vefnum er lokið mætir umsækjandi til sýslumanns til að ljúka þeim hluta umsóknarinnar sem kallar á viðveru, svo sem myndatöku, undirritun og fingrafaraskráningu. Hægt er að bóka tíma í myndatöku á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þarf að bóka tíma á öðrum umsóknarstöðum.
Umsókn um vegabréf hefur hingað til falið í sér meira umstang umsækjenda á skrifstofu sýslumanns og ber þar helst að nefna útfyllingar á eyðublöðum, bið hjá gjaldkera til að greiða fyrir vegabréfið og bið í myndatöku. Með forskráningu og greiðslu á Ísland.is er þessu ferli hraðað á þann hátt að umsækjandi hakar einfaldlega við á Ísland.is að hann óski eftir vegabréfi, gengur síðan frá greiðslu og mætir að lokum til sýslumanns beint í myndatöku til að klára umsóknarferlið og getur gert það á hvaða skrifstofu sýslumanns sem er á landinu óháð því hvar þeir búa.
Forsjáraðilar með börn eiga nú enn hægara um vik að sækja um vegabréf því nú geta þeir samþykkt umsóknina fyrir sitt leyti í stafrænu ferli. Annar forsjáraðilinn byrjar umsóknarferlið og hinn fær stafræna beiðni með tölvupósti og á Mínar síður um að samþykkja útgáfu vegabréf barnsins sem sótt er um fyrir.
Útgefin vegabréf á Íslandi á þessu ári eru farin að nálgast 48.000. Flest vegabréf á einu ári voru gefin út árið 2016 þegar um 76.000 vegabréf voru gefin út.
Dæmisögur um það hvernig breytingin kemur við fólk
- Forsjáraðili kom með barn sitt langt að til þess að sækja um vegabréf og hafði ekki áttað sig á því að báðir forsjáraðilar þyrftu að samþykkja umsókn barnsins með því að fylla út og undirrita sérstakt eyðublað. Í stað þess að vera sendur burt og þurfa að koma aftur ásamt hinum forsjáraðilanum var honum boðið að sækja um stafrænt og forsjáraðilinn, sem var í öðru bæjarfélagi, gat samþykkt umsóknina um hæl og barnið gat farið beint í myndatöku hjá sýslumanni.
- Forsjáraðili kom með barnið sitt til sýslumanns til að sækja um vegabréf og hélt að hinn forsjáraðilinn þyrfti ekki að koma með vegna þess að þeir væru giftir. Hann ætlaði að bíða eftir að makinn losnaði úr vinnu til að hlaupa til sýslumanns og skrifa undir en þá benti starfsmaður honum á nýju umsóknina. Forsjáraðilinn hóf umsóknina, maki hans fór inn á Mínar síður og samþykkti stafrænt í gegnum símann sinn og þurfti því ekki að taka sér frí frá vinnu.
- Fjölskylda með þrjú börn kom með tvö þeirra á skrifstofu sýslumanns en einn unglingur var í skólanum og komst ekki á þessum degi. Foreldrar kláruðu stafrænu umsóknina fyrir öll þrjú börnin og börnin sem voru á staðnum kláruðu umsóknina á meðan unglingurinn mætti daginn eftir með öðru foreldrinu og fór beint í myndatöku.
Verkefnið var unnið í samstarfi sýslumanna, Þjóðskrár Íslands og Stafræns Íslands.