Nýr veruleiki kallar á nánara Norrænt samstarf
Norðurlöndin þurfa að efla samstarf atvinnulífsins þegar kemur að grænum umskiptum, gervigreind og stafrænum umskiptum. Þetta var niðurstaða nýafstaðins norræns ráðherrafundar atvinnumála þar sem ráðherrarnir ræddu nýjan pólitískan veruleika og forgangsröðun í atvinnulífinu til ársins 2030.
Heimsmyndin hefur breyst og ný landfræðileg spenna hefur skapast. Þetta er áskorun fyrir samkeppnishæfni Norðurlandanna og aðfangakeðjur. Því er þörf á nýjum norrænum lausnum sem styrkja bæði einstök lönd og svæðið í heild. Var þetta meginstef ráðherrafundarins sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, rannsókna- og nýsköpunarráðherra, stóð fyrir.
,,Í alþjóðlegri samkeppni um fólk, fyrirtæki og spennandi tækifæri eru Norðurlöndin sterkari saman. Við getum bæði lært hvert af öðru um leið og við markaðssetjum okkur sem spennandi áfangastað fyrir heiminn,“ segir Áslaug Arna.
Auka þarf hraða grænna umskipta
Orkukreppa og óvissa um afhendingaröryggi á nauðsynjum hafa bæst við loftlagsvána. Ráðherrar sem voru viðstaddir fundinn voru þó sammála um að lausnir til að mæta þessum áskorunum séu til staðar í formi grænna umskipta, en þeim verður að hraða að mati Norrænu ráðherranna. Innan orræns samstarfs eru tækifæri til að styðja við þróun, stækkun og útflutning á grænum lausnum.
Óþrjótandi möguleikar með nýrri tækni og gervigreind
Undir regnhlíf grænna umskipta eru stafræn væðing og gervigreind. Á ráðherrafundinum var sammælst um að stafrænar lausnir, gervigreind og betri nýting gagna muni flýta fyrir grænum umskiptum og stuðla að því að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Einnig voru fundarmenn sammála um að Norðurlöndin þurfa að vera meðvituð um áskoranir sem ný tækni og gervigreind hafa í för með sér, svo að hröð tækniþróun sé jákvætt og öruggt framlag til samkeppnishæfni Norðurlanda. Aðalritari Norrænu ráðherranefndarinnar, Karen Ellemann, segir í þessu sambandi að ný tækni sé forsenda grænna umskipta. ,,Þess vegna verðum við sem lýðræðissamfélög að tryggja að ný tækni sé þróuð og notuð með virðingu fyrir lýðræðislegum meginreglum, siðferðislegum grunngildum og óskum og þörfum íbúa."