Hoppa yfir valmynd
18. október 2023 Innviðaráðuneytið

Útvíkkun aðgerða til annarra málefnasviða vekur athygli

Formenn norrænu sendinefndanna að Syðra Langholti (f.v.) Erik Slottner, stjórnsýsluráðherra (Svíþjóð), Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Anna Kaisa, sveita- og byggðamálaráðherra (Finnland), Ole Gustav Narud, aðstoðarráðherra (Noregur), Brandur Franklín Karlsson, deildarstjóri (Grænland), Christina Holm Davidsen, fulltrúi (Færeyjar) og Natasha Voss Plum, sérfræðingur (Danmörk).  - mynd

Útvíkkun aðgerða nýrrar sveitarstjórnaráætlunar til málefnasviða annarra ráðuneyta vakti athygli norrænna ráðherra og helstu norrænna sérfræðinga á sviði sveitarfélaga á samráðsfundi ráðherranna á Flúðum í liðinni viku. Aðgerðaáætlun stefnumótunarinnar geymir meðal annars aðgerðir í þágu fólks með fötlun, ungra barna og innflytjenda.

Á fundinum kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, nýjungar í þingsályktunartillögu um endurskoðaða stefnu og aðgerðaáætlun í sveitarstjórnarmálum. Þar kom fram að aldrei hefði verið leitað jafn víðtæks samráðs við íbúa, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila um málefni sveitarstjórnarstigsins og gert hefði verið við undirbúning stefnumótunarinnar. „Ráðuneytið brást meðal annars við ákalli hagsmunaaðila um umbætur í þjónustu við tiltekna hópa með því að efna til samráðs við önnur ráðuneyti um umbótaverkefni í þágu ungra barna, barnafjölskyldna, fólks með fötlun og innflytjenda,“ sagði hann.

Sigurður Ingi bætti við að raunar væri einnig lögð áhersla á almennar umbætur á sviði þjónustu í áætluninni. „Við erum að ýta úr vör fyrstu samræmdu mælingunni á ánægju fólks með þjónustu einstakra sveitarfélaga og munum nýta niðurstöðurnar til umbóta, m.a. með kynningum á fyrirmyndarþjónustu á milli sveitarfélaga. Með sama hætti felur aðgerðahluti áætlunarinnar í sér átak til að eyða út svokölluðum gráum svæðum í þjónustu ríkis og sveitarfélaga og skilgreina lágmarksþjónustu.“

Hann sagði að ein helsta áskorun sveitarfélaganna fælist í viðbrögðum við mikilli fólksfjölgun í landinu. Aldrei hafa fleiri flust til landsins frá upphafi mælinga og árið 2022 eða ríflega 11.500 manns. „ Bregðast þarf við þessari fjölgun með aukinni þjónustu og uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við rammasamning ríkisins við sveitarfélögin,“ sagði Sigurður Ingi meðal annars í þessu sambandi.

Aðrar umræður á fundinum snerust meðal annars um hversu langt væri rétt að ganga í jöfnun tekna milli sveitarfélaga án þess að draga úr frumkvæði sveitarstjórna til þess að stuðla að hagkvæmni í rekstri, jafnvægi milli faglegrar stjórnsýslu og íþyngjandi regluverks og aðgerðir til að hindra misnotkun í velferðarþjónustu.

Eftir fundinn brugðu norrænu ráðherrarnir sér ásamt öðrum þátttakendum í heimsókn í hesthús Sigurðar Inga Jóhannssonar og Elsu Ingjaldsdóttur, eiginkonu hans, að Syðra Langholti og vöktu íslensku hestarnir mikla lukku. Einnig kynntu þátttakendur sér starfsemi Friðheima og heimsóttu Þingvelli á heimleiðinni.

Samráðsfundir norrænna ráðherra á sviði sveitarstjórnarmála eru haldnir árlega. Næsti fundur norrænna ráðherra á sviði sveitarstjórnarmála fer fram í Danmörku að ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta