Hoppa yfir valmynd
19. október 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Orkuöryggi í brennidepli í norrænu samstarfi

F.v. Petteri Kuuva f.h Finnlands, Karen Ellemann framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar,  Stefan Fransman f.h. Álandseyja, Ebba Busch orkuráðherra Svíþjóðar, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Louise Schack Elholm ráðherra norræns samstarfs fh. Danmerkur, Terje Asland orkuráðherra Noregs,  Kalistat Lund orkuráðherra Grænlands, Kári Mortensen fh. Færeyja. - myndSigurjón Ragnarsson

Orkumálaráðherrar Norðurlandanna funduðu í Reykjavík í gær til að ræða áskoranir og lausnir í orkumálum, en Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í gær. Í lok fundar gáfu ráðherrarnir út nýja yfirlýsingu um norrænt samstarf á sviði orkumála og áherslur  ráðherranefndarinnar í málaflokknum fram til ársins 2030. Eitt meginmarkmið samstarfsins er  að Norðurlöndin verði sjálfbærasta svæði heims.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: Breytt heimsmynd á tímum ófriðar og loftslagsbreytinga hefur varpað nýju ljósi á orkuöryggi og þýðingu þess fyrir þjóðaröryggi. Orkumál eru þjóðaröryggismál.  Ein mesta áskorunin sem Ísland stendur frammi fyrir í dag er að tryggja áfram á næstu áratugum nægt framboð endurnýjanlegrar orku á hagstæðu verði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Norðurlöndin standa frammi fyrir sömu áskorunum og við munum vinna saman á mörgum sviðum til að auðvelda okkur verkefnið. Forsenda þess að Norðurlöndin nái metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum sínum og markmiði um orkuskipti er aukin framleiðsla grænnar orku. Með áframhaldandi samvinnu eru Norðurlöndin í aðstöðu til að vera leiðandi á svið nýrrar orkutækni og nýsköpunar á sviði orku- og loftslagsmála. Norðurlönd eiga mjög mikil tækifæri á sviði grænnar orkuöflunar, kolefnisföngunar og framleiðslu rafeldsneytis.

Orkuöryggi og græn orkuskipti

Í yfirlýsingu ráðherranna kemur fram að sú breytta heimsmynd sem Norðurlöndin standa frammi fyrir í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu ásamt veðurbreytingum vegna loftslagsáhrifa hafi varpað skýru ljósi á mikilvægi orkuöryggis. Við þessar erfiðu aðstæður hafi norræn samvinna enn á ný sannað gildi sitt. 

Vilja ráðherrarnir leggja áherslu á aukið samstarf á sviði þróunar grænnar orku, m.a. sólarorku, vindorku og jarðhita. Þá telja þeir ekki síður mikilvægt að Norðurlöndin vinni saman að þróun vetnis, ammoníaks og rafeldsneytis, en ný tækni á þessu sviði geti greitt fyrir orkuskiptum í geirum sem erfitt er að rafvæða, líkt og í siglingum og flugi.

Saman hafi Norðurlöndin mikinn slagkraft á sviði og vísinda og tækni og geti orðið leiðandi í þróun nýrrar tækni á þessum sviðum með tilheyrandi bættu orkuöryggi.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna, með áherslu á málefnasvið þar sem samlegðaráhrif Norðurlandanna eru talin hvað mest. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og leiðir samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta