Veitir Foreldrahúsi styrk
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Foreldrahúsi styrk að upphæð þremur milljónum króna. Foreldrahús býður upp á ráðgjöf fyrir foreldra, fjölskylduráðgjöf og foreldrahópa, auk sjálfsstyrkingarnámskeiða fyrir foreldra, börn og unglinga. Einnig er boðið upp á stuðningsmeðferð fyrir unglinga í fikti, neyslu og vímuefnavanda.
Foreldrahús sinnir auk þess ráðgjöf vegna fjölbreyttari vanda og má þar nefna einelti, félagslega erfiðleika, vanlíðan, kvíða og hegðunarvanda, auk uppeldisráðgjafar og námskeiða fyrir foreldra sem vilja styrkja sig í uppeldishlutverkinu.
Þá er starfræktur foreldrasími sem opinn er allan sólarhringinn, sjá nánar á vefsíðu Foreldrahúss.