Til umsagnar: Reglugerð um meðferðir til útlitsbreytinga án læknisfræðilegs tilgangs
Birt hafa verið til umsagnar og samráðs drög að reglugerð sem takmarka heimildir til að veita tilteknar meðferðir sem gerðar eru til að breyta útliti fólks í fegrunarskyni og án læknisfræðilegs tilgangs. Með áformuðum breytingum verður áskilið að einungis tilteknum löggiltum heilbrigðisstéttum og eftir atvikum sérfræðingum innan þeirra, verði heimilt að veita þær meðferðir sem um ræðir. Markmiðið er að tryggja öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.
Í reglugerðardrögunum er einnig kveðið á um skyldu meðferðaraðila til að upplýsa sjúkling munnlega og skriflega um mögulegar aukaverkanir meðferðar, áhættu sem henni getur fylgt, mögulega fylgikvilla o.fl. Enn fremur eru ákvæði um eftirlit landlæknis og Lyfjastofnunar, um nauðsynlegar tryggingar þjónustuveitenda og viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðarinnar.
Haft var samráð við embætti landlæknis, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra húðlækna og Félag íslenskra lýtalækna við smíði reglugerðardraganna. Einnig var höfð hliðsjón af lögum og reglugerðum annarra Norðurlandaþjóða á þessu sviði.
Frestur til að skila umsögnum er til 10. nóvember.