Aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra í tímabundið leyfi frá störfum
Sóley Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra, verður í tímabundnu leyfi frá störfum frá 1. nóvember 2023 til og með 30. apríl 2024. Ekki verður ráðinn annar aðstoðarmaður fyrir mennta- og barnamálaráðherra á því tímabili. Teitur Erlingsson, sem einnig er aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra, heldur áfram störfum.
Sóley Ragnarsdóttir mun leiða verkefni Skálatúns, sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna ses., sem fer með lóð og eignir Skálatúns í Mosfellsbæ sem ánafnað var sjálfseignarstofnuninni af hálfu fyrrum eigenda, IOGT á Íslandi, í maí síðastliðnum.
Mikil uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu er varðar þjónustu í þágu barna og fjölskyldna sem felur m.a. í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar geti verið staðsettir á sama svæðinu. Tilgangurinn er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.
„Í landi Skálatúns í Mosfellsbæ felast mikil sóknarfæri til að bæta og samþætta þjónustu við börn og ungmenni. Staðsetning mismunandi þjónustuaðila barna og fjölskyldna á sama stað mun auka hagkvæmni í rekstri en ekki síður auka á samtal og samstarf þeirra á milli, börnum og fjölskyldum í hag. Þá er gleðilegt að sjá fram á að börn og fjölskyldur þeirra muni geta sótt mismunandi þjónustu á einn og sama staðinn en muni ekki þurfa að fara milli þjónustuveitenda víða um höfuðborgarsvæðið. Þetta hefur verið pólitískt áherslumál mitt um langt skeið og það er afskaplega gleðilegt að sjá verkefnið nú fara af stað af krafti,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.