Fléttan: Landspítalinn í samstarf við fimm nýsköpunarfyrirtæki
Úthlutanir styrkja úr Fléttunni - styrkja til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu voru kynntar á dögunum. Að þessu sinni hefur tólf íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum verið boðið að ganga til samninga en alls verður um 104 milljónum króna dreift til innleiðingar nýrrar tækni og lausna í heilbrigðiskerfinu.
Styrkir úr Fléttunni eru háðir því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða þá nýsköpun sem styrkur er veittur til. Þannig er Fléttan brú á milli einkaframtaksins og heilbrigðiskerfisins.
Landspítalin er, líkt og fyrra ár, samstarfsaðili fjölmargra styrktra verkefna en í ár hefur Landspítalinn skuldbundið sig til að vinna með fimm fjölbreyttum nýsköpunarfyrirtækjum að innleiðingu nýrrar tækni eða lausna.
Sidekick Health - stafræn meðferðarúrræði fyrir krabbameinssjúklinga
Sidekick Health hefur undanfarin ár þróað stafræn stuðningsúrræði og snjalllausnir fyrir sjúklinga. Fyrirtækið hlýtur styrk úr Fléttunni, í samstarfi við Landspítalann, til innleiðingar stafræns stuðningsúrræðis fyrir einstaklinga með brjóstakrabbamein búsetta á landsbyggðinni, en engin sambærileg lausn stendur krabbameinsgreindum til boða hérlendis. Úrræðið veitir stuðning við uppbyggilegan lífsstíl, fræðslu og úrræði við áskorunum sem fylgja því að greinast með krabbamein og undirgangast krabbameinsmeðferð. Notast er við aðferðir úr atferlisfræði til að ná fram jákvæðum breytingum á lífsstíl og tengdri hegðun og heilsuþjálfarar fylgja notendum eftir með aðhaldi og ráðgjöf. Bætt lífsgæði brjóstakrabbameinsgreindra geta dregið úr fjárhagslegri byrði heilbrigðiskerfis, t.d. dregið úr kostnaði við meðhöndlun aukaverkana og hugsanlega fækkað komum á sjúkrastofnanir vegna þeirra. Þá bætir lausnin verulega þjónustu Ljóssins við einstaklinga búsetta í dreifðari byggðum og fjarri höfuðborgarsvæðinu.
Tiro ehf. - skilvirkar íslenskar dikteringar
Tiro ehf. hlýtur styrk fyrir verkefni sem snýr að innleiðingu talgreiningar fyrir dikteringar á háls-, nef- og eyrnadeild og barnalækningasviði Landspítalans, og leggur þannig grunn að innleiðingu skilvirkrar íslenskrar dikteringar í heilbrigðiskerfinu sem hægt er að útfæra fyrir notkun á stórum skala. Með þessu verkefni verður lagður grunnur að hágæða samræmdri talgreiningu fyrir allt heilbrigðiskerfið, óháð því hvaða kerfi er í notkun.
Kara Connect - velferðartorg Landspítalans
Kara Connect innleiðir velferðartorg Landspítalans sem býður starfsmönnum aðgengi að sérfræðiþjónustu, t.d. þjónustu sálfræðings, næringarráðgjafa o.s.frv. Í þessu samstarfsverkefni verður betur rýnt í hönnun breyta til að mæla notkun og arðsemi annars vegar og tryggingu góðs tæknilegs aðgengis og upplýsinga fyrir alla starfsmenn Landspítalans, óháð uppruna, hins vegar.
DataLab Ísland - aukin skilvirkni og þjónusta með mælaborði göngudeildar geðsviðs
DataLab Ísland hlýtur styrk til innleiðingar mælaborðs sem veitir yfirsýn yfir starfsemi göngudeildar geðsviðs á Landspítalanum og gerir starfsfólki deildarinnar kleift að fylgjast betur með stöðu hverju sinni og þar með bregðast hraðar við frávikum. Gervigreind verður notuð og samtvinnuð mælaborðinu til að sýna líklega þróun mælikvarða, spá fyrir um afbókanir, koma auga á frávik í frammistöðumælikvörðum og greina fyrirbyggjandi aðgerðir. Með innleiðingu verkefnisins er unnt að bæta skilvirkni, framleiðni starfsmanna og þjónustu við sjúklinga.
Medvit Health - aukin gæði taugasálfræðiþjónustu með Tauginni
Medvit Health hlýtur styrk til innleiðingar Taugarinnar á öllum viðkomandi deildum Landspítalans. Taugin er vinnutæki taugasálfræðinga við taugasálfræðilegt mat á heilabilun og heilaskaða. Tilgangur verkefnisins er að auka skilvirkni og tryggja gæði taugasálfræðiþjónustu auk þess að tryggja örugga vörslu og aðgengi taugasálfræðinga að vinnugögnum.