Ísland tvöfaldar framlög til mannúðaraðstoðar á Gaza og kallar áfram eftir tafarlausu mannúðarhléi
Íslensk stjórnvöld ætla að tvöfalda framlög sín til mannúðaraðstoðar á Gaza. Þetta var tilkynnt í neyðarumræðu um stríðsátökin fyrir botni Miðjarðarhafs í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi þar sem fulltrúi Íslands ítrekaði ákall um tafarlaust hlé á átökunum.
„Mannúðarhlé er forsenda þess að hjálparstofnanir og aðrir viðbragðsaðilar geti veitt almennum borgurum á Gaza lífsbjargandi aðstoð og dreift nauðþurftum. Þess vegna hefur Ísland kallað skýrt eftir tafarlausu hléi undanfarna daga, jafnt á opinberum vettvangi, sem og í samtölum við fulltrúa ísraelskra stjórnvalda og á allsherjarþinginu. Framlagið sem tilkynnt var í gær er liður í að styðja við starf stofnana Sameinuðu þjóðanna á Gaza til að standa vörð um mannlega reisn og draga úr þjáningum almennra borgara,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Í ræðunni á allsherjarþinginu kom fram að í ljósi óásættanlegs mannfalls og þeirrar neyðar sem ríkir á svæðinu væri þörf á tafarlausu mannúðarhléi, óheftu mannúðaraðgengi- og aðstoð á Gaza. Svara yrði ákalli um vernd almennra borgara og nauðþurftir, þ.m.t. eldsneyti. Þá lýstu íslensk stjórnvöld yfir áhyggjum af fregnum af mögulegum brotum gegn alþjóðalögum sem yrði að rannsaka.
Sömuleiðis var lögð áhersla á að koma í veg fyrir frekari stigmögnun átakanna og skapa skilyrði fyrir pólitíska langtímalausn og frið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar.
Ísland hyggst leggja til 70 m.kr. viðbótarframlag til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) en þar með nema framlög íslenskra stjórnvalda til mannúðaraðstoðar á Gaza frá því að stríðsátökin brutust út alls 140 m.kr. UNRWA er ein af samstarfsstofnunum Íslands í mannúðarmálum og meginviðbragðsaðili Sameinuðu þjóðanna í þeirri neyð sem nú ríkir. Yfir 690.000 manns hafa leitað skjóls í neyðarskýlum stofnunarinnar af þeim 1,4 milljónum manna sem nú eru vegalaus á Gaza.
Yfirlýsing Íslands á neyðarfundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 30. október.