Skýrara verklag í heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru þolendur kynferðisofbeldis
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að innleiða verklag í heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi. Verklagið er tillaga frá starfshópi sem ráðherra fól að kortleggja og samræma fyrirkomulag varðandi aðkomu heilbrigðisstarfsfólks þegar upp kemur grunur um kynferðisofbeldi í garð barna.
Markmiðið vinnunnar var að tryggja rétt viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar og skýra boðleiðir milli lögreglu, barnaverndar og heilbrigðiskerfisins með hag barnanna að leiðarljósi.
Um sérstaklega viðkvæman hóp einstaklinga er að ræða og því var brýnt að skýra enn frekar fyrirkomulagið við slíkar skoðanir þannig að börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi fái bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni, að hún sé veitt af viðeigandi aðilum og án tafar sé þess óskað af lögreglu.
Heilbrigðisráðherra samþykkti jafnframt tillögu hópsins um að setja á fót starfshóp hvers verkefni yrði að kortleggja fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem búa við hvers kyns ofbeldi og skýra þannig framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu í málafloknum, með sérstakri áherslu á fötluð börn.
Í starfshópnum sátu fulltrúar félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, héraðssaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórans á Suðurnesjum, félagsþjónustu Grindavíkur, Barnavernd Reykjavíkur og Barnahúss. Fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins var formaður hópsins en auk skipaðra fulltrúa var leitað aðstoðar og ráðgjafar hjá fjölmörgum fagaðilum sem þekkja málaflokkinn vel.