Áhugaverðir fyrirlesarar á Matvælaþingi 15. nóvember
Þær Ladeja Godina Košir, framkvæmdastjóri Circular Change samtakanna og Anne Pøhl Enevoldsen, deildarstjóri sjálfbærs matarræðis og heilsu hjá danska matvæla- og dýraeftirlitinu eru á meðal þeirra fjölmörgu áhugaverðu fyrirlesara sem fram koma á Matvælaþingi í Hörpu miðvikudaginn næsta, 15 nóvember.
Hringrásarhagkerfið, í samhengi við nýsamþykkta matvælastefnu til ársins 2040, er meginviðfangsefni þingsins sem er nú haldið í annað sinn. Auk þess að vera stofnandi og framkvæmdastjóri Circular Change er Ladeja Godina Košir meðstjórnandi European Circular Economy Stakeholder Platform á vegum Evrópusambandsins.
Ladeja hefur verið öflugur talsmaður hringrásarhagkerfisins á alþjóðlegum vettvangi og meðlimur í alþjóðlegum ráðum, sérfræðingahópum og dómnefndum sem því tengjast. Hún er einnig meðhöfundur fyrsta vegvísins að hringrásarhagkerfi í Slóveníu, Serbíu, Svartfjallalandi, Kósóvó og Síle. Ladeja mun deila með gestum Matvælaþings sinni þekkingu og reynslu í að tileinka sér hringrásarhagkerfið jafnt í hugsun og verki. Hún leggur áherslu á óhefðbundna nálgun til að skapa tækifæri fyrir uppbyggingu endurnýjanlegs hagkerfis og samfélags. Fyrir störf sín hefur Ladeja hlotið alþjóðlegar viðurkenningar, The Circular Leadership Award 2018 (Davos WEF) og #EUwomen4future hjá framkvæmdastjórn ESB árið 2020.
Anne Pøhl Enevoldsen mun leiða gesti Matvælaþings í allan sannleika um hvernig má vinna með sjálfbærni í leiðbeiningarreglum um matarræði. Í Danmörku leiddi Anne vinnu um opinberar viðmiðunareglur fyrir matarræði til góðs fyrir heilsu og loftslag.
Reglurnar voru innleiddar árið 2021 og er það í fyrsta sinn í Danmörku sem slíkar viðmiðunarreglur snúast ekki einungis um hollustu, heldur einnig um hvernig megi borða loftslagsvænna. Anne er jafnframt formaður Norræns vinnuhóps um heilbrigt, öruggt og sjálfbært matarræði í Norrænu ráðherranefndinni.
Auk ofangreindra fyrirlesara munu eftirtalin erindi verða flutt á þinginu:
- Anna María Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Coolity
Frá jörðu til jarðar
- Birgir Örn Smárason, fagstjóri hjá Matís
Hvað er í matinn árið 2050? – Framtíð matvælaframleiðslu
- Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelandic Lamb
Gögn og gæði. Rannsókn á nýtingarhlutfalli lambakjöts og aukaafurða
- Jóhannes Urbancic, sérfræðingur á Umhverfisstofnun
Umfang matarsóunar á Íslandi
- Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brimi
Nauðsynleg innihaldsefni í uppskrift að hringrásarhagkerfi
- Valdimar Sigurðsson, prófessor við HR
Neytendahegðun og virk smásala
Matvælaþing er opið öllum þeim sem taka vilja þátt í samtali um stöðu matvælaframleiðslu í hringrásarhagkerfinu. Þingið hefst kl. 9.15 að morgni og lýkur um 15.30. Dagskrá þingsins má sjá hér og skráning fer fram hér.